The ArcticMainpage
Skoða stærra kort
PDF-version
PDF-útgáfa
af þessari grein
Heimskautasvæðin eru vistkerfi
eftir Bill Heal  
KAFLAR:
Fyrri kafliFyrri kafli Næsti kafliNæsti kafli
Vistkerfi á landi
Breytingar í rás tímans
  Er jöklar og íshettur hörfuðu fyrir 10-20,000 árum var fyrsti "jarðvegurinn" einungis berangur, urðir og jökulruðningar. Veðrun vann seint á hörðu granítbergi og myndun jarðvegsefna og uppleysanlegra næringarefna var því hæg. Kalksteinn veðraðist mun hraðar og til varð basískur jarðvegur. En jarðvegsörður voru fljótar að leysast upp, vatnsrásir opnuðust og næringarefnin vildu skolast út úr kerfinu. Í öðru setbergi var meira um sand og leiragnir og nauðsynleg næringarefni, eins og t.d. fosfór og kalíum varðveittust betur. Jarðfræðin mótaði uppruna vistkerfanna. Köfnunarefni var það frumefni sem þurfti til að plöntur næðu að dafna og tímgast. Regn var af skornum skammti, en blá-grænir þörungar sem gátu unnið köfnunarefni úr andrúmsloftinu uxu þar sem vatn var að hafa. Sumir þörungar, gátu nýtt sér endurkast sólarljóss og uxu undir steinum sem safna í sig sólarhitanum. Smám saman tóku skófir að myndast á klettum og steinum. Skófir eru eins konar sambýli þörungs og svepps og mynda sjálfstætt innbyggt vistkerfi sem getur framleitt, leyst upp og endurnýtt.
  Það eru þessir frumherjar sem náðu að sanka að sér ómissandi köfnunarefni og næringu sem koma plöntulífi á stað mitt í auðninni þar sem ekkert lífrænt efni var áður að finna - en næringarefnin voru einmitt sá höfuðstóll sem safna þurfti. Örverur sem geta unnið frumefni úr steinum hjálpa svo til við þessa þróun. Þegar örður lífrænna efna taka að myndast, byrja aðrar plöntur að festa rætur og sá sér út með frækornum sem ná að spíra og vaxa með því að nýta sér agnir lífrænu efnanna sem fyrir eru. Annars staðar eru leifar gróðurs sem hafði vaxið áður en ísinn lagðist yfir, eða borist á svæðið með árframburði. Hér gengur landnámið greiðar fyrir sig, en fyrstu landnemarnir eru oft plöntur sem bera með sér örverur sem geta bundið köfnunarefni.
  Þær plöntur sem fyrst nema land vaxa og tímgast hratt til að ná að nýta landkostina. Smátt og smátt fjölgar tegundum, nýjar plöntur dafna í skjóli þeirra sem fyrir eru og nærast á uppsöfnuðum lífrænum áburði. Gróðurþekjan verður æ stærri, mosar þekja stór svæði og jarðvegurinn nýtur verndar gegn kulda. En einangrandi gróðurþekjan bægir ekki bara frostinu frá. Hún getur líka haft þveröfug áhrif; viðhaldið sífreranum, svo gróðurlagið verður þynnra, lífræn efni endurnýjast hægar, plöntur eiga erfiðara með að skjóta rótum og jarðveginum hættir til að verða vatnsósa í mikilli úrkomu. Þær plöntur sem varðveita orkuforða innra með sér til að ná öflugum vexti í upphafi sumars eru mun betur settar við þessi skilyrði. Þær halda fast á sínu og sigra því gjarna í samkeppninni. Smám saman hafa breytt gróðurskilyrði einnig áhrif á dýralífið. Blómskrúð plantna sem fyrstar hafa náð rótfestu laðar að grasbíti. Lítil skordýr berast með vindi og þau heppnu lenda í gróðurvinjunum. Á síðari stigum þróunar vaxa fjölærar plöntur, með trékenndum stönglum, sem oft framleiða varnarefni gegn ágangi grasbítanna. Þá bregst dýralífið við með aukinni sérhæfingu og beitin takmarkast við tímabil þegar ekki er aðra fæðu að fá.
  Hvað varðar tímaskeið þessa ferlis, mælist fyrsta stigið í öldum. Síðari þrep eru afar breytileg frá einum stað til annars, eins og upphaflegar aðstæður sem koma ferlinu af stað. Röskun jarðvegs vegna endurtekinna frosta og þíðu, veðrun, þornun stöðuvatna, eldur og athafnir manna, svo sem traðk eða iðnvæðing; allt getur þetta fært ferlið til baka á upphafsstig. Gróðurfar og dýralíf í grennd getur verið uppspretta nýrra landnema. Landnám dýra og gróðurs á nýjan leik mælist gjarna í áratugum.
  Í grundvallaratriðum hefur allt svæðið orðið fyrir loftslagsbreytingum um þúsundir ára; ýmist hefur hlýnað eða kólnað. Dýr og plöntur hafa aðlagast til að geta lifað af þessar síbreytilegu, harðneskjulegu aðstæður. Flókið aðlögunarmynstur, t.d. notkun efna sem verja gegn frosti, gerir tegundunum fært að bregðast við og lifa af loftslagsbreytingar eins og þær sem vænta má vegna mikils kolefnis sem mennirnir dæla út í andrúmsloftið. Dreifing tegunda mun breytast; sumar færa sig á ný svæði, aðrar draga sig í hlé; ferlið er sveiflukennt eins og ávallt hefur verið. Minnkandi og vaxandi fjölbreytni hreindýrategunda á Grænlandi síðustu 10,000 árin er gott dæmi um langtíma þróunarmynstur sem í þessu tilviki átti rætur að rekja til landslagsbreytinga, ísmyndunar og jökulhindrana, ásamt með loftslagssveiflum, ofbeit og ágangi manna og úlfa.
Fyrri kafliFyrri kafli Næsti kafliNæsti kafli
The Arctic is an Ecosystem, by Bill Heal. http://www.thearctic.is
Copyright Stefansson Arctic Institute and individual authors ©2000
Developed in partnership with the EU Raphael Programme