|
Breytilegt vistkerfi
heimskautsins |
|
Ef fylgst er með loftslaginu í
áratugi eða aldir, koma fram tímabundin kulda-
eða hitaskeið. Skammvinn kuldaköst geta stafað
af eldfjallaösku sem dreifist um heiðhvolfið og dregur
úr geislun í nokkur ár. Varanlegri áhrif
stafa af breyttum styrkleikahlutföllum tveggja stórra
hringrása; annars vegar Norður Atlantshafssveiflunni
er kalt loft úr norðri mætir hlýju suðrænu
lofti og hins vegar hitaseltuhringrás sjávar (færibandið
svokallaða) sem flytur hlýjan og saltan sjó til
norðurs í kælingu Íshafsins þar sem
han sekkur og streymir síðan suður á bóginn
á ný. Sveiflur í þessum kerfum andrúmslofts
og hafstrauma valda loftslagsbreytingum, eins og gerðist á
Litlu ísöld á 16. og 17. öld. Þannig
geta orðið langtímabreytingar á loftslagi
heimskautasvæðanna til viðbótar stórbrotnum
árstíðasveiflum. |
|
Snjóa- og ísalög
vaxa og dragast saman, jöklar skríða fram og móta
U-laga dali í mjúkt berg, skilja eftir sig jökulruðninga
og breyta ásýnd landsins. Ár flæða
yfir bakka sína, grafa sér nýja farvegi og
flæmast yfir flæðilönd, eða flóðin
réna, flæðilönd þorna upp og tjörnum
fækkar. Yfirborð landsins er í tekur sífelldum
breytingum vegna frosts og þíðu (frostlyfting),
sífrerinn og ísdrönglarnir mjakast upp eða
niður, eftir því sem loftslagið breytist, og
skilja eftir sig mismunandi mynstur í flötu eða
hallandi landslagi. |
|
Er jöklar og snjóalög
hörfa, nær gróður að breiðast út,
lífræn efni hlaðast upp og mynda jarðveg og
mór verður til í votri jörð. Jafnt á
landi sem í hafi víkka landamæri dýra
og plöntulífs, eða þau dragast saman, við
norður og suðurjaðra landfræðilegrar útbreiðslu
þeirra. Á eyjum eða fjallatindum kann svo að
fara að tegundir sem eru komnar á ystu mörk lífrýmis
síns deyi út á svæðinu. Þær
eiga sér enga undankomuleið.
Í árþúsundir hefur yfirborð jarðarinnar
brugðist við loftslagsbreytingum, risið eða hnigið
í takt við breytingar ísmassans, svo að til
hafa orðið hækkandi (eða lækkandi) sandstrendur
og árósar sem hafa breytt farvegi vatnsfalla. Þessar
breytingar verða sýnilegar á þúsundum
ára, en á okkar tímum er einnig unnt að
mæla ris um 2-3 mm á áratug á sumum svæðum
- en hér er um að ræða eina af mörgum
hægum en sívirkum breytingum innan vistkerfis heimskautalandanna. |
Grænlenskur jökulfjörður.
(Jónas G. Allansson 2000.) |
Loftslagsbreytingar hafa mótað
heimskautasvæðin og lífsskilyrði þeirra
um þúsundir ára. Áhrifin eru ekki bara
breytileg frá einum tíma til annars; þau eru
líka staðbundin. Dýr og jurtir sem best geta lagað
sig að ríkjandi ástandi á hverjum tíma
lifa af og dafna. En aðstæður geta verið mismunandi
innan afmarkaðra svæða sem oft skiptir miklu máli,
sér í lagi þar sem skilyrði eru hörð
og síbreytileg. Hlýlegar, skjólríkar
landspildur mót suðri geta verið eins og vinjar sem
skapa viðkvæmum lífverum afkomuskilyrði.Rakar
eða votlendar dældir í þurru landslagi eru
athvörf þegar úrkoman bregst. Frostlyfting jarðvegsins
hjálpar tegundum sem eru snjallir landnemar en standast illa
samkeppni. Þannig hefur breytileiki landslagsins ásamt
loftslagssveiflum í tímans rás valið úr
dýr og jurtir sem kunna að vera "fyrirfram aðlagaðar"
til að standast álag vegna loftslagsbreytinga í
framtíðinni. |
|