|
Vistkerfi norðursins
og breytingar á umhverfi
Heimskautasvæðin ERU vistkerfi |
|
Ef litið er til jarðar utan
úr geimnum, gegnum sólvinda sem sólgosin þeyta
út á 200 km hraða á mínútu,
gegnum helkalt heiðhvolfið, -200 gráður á
Celsíus, sem rúið hefur verið vernd ósonlagsins,
gegnum mörk efra og neðra hjúps andrúmsloftsins
í 3 km hæð, gefur að líta norðurheimskautið
hjúpað vetrarmyrkri í böndum 39 milljón
ferkílómetra hafíshellu sem kennd er við
norðurpólinn. Íshellan teygist til suðurs
í átt að þremur leiðum út úr
Íshafinu - þröngu sundi inn í Norður
Atlantshafið vestan Grænlands; gegnum 500 kílómetra
breitt hafsvæði milli Grænlands og Svalbarða;
og gegnum 70 kílómetra breitt Beringsundið milli
Chukotka og Alaska inn í Beringshaf, en þaðan er
leiðin greið til Kyrrahafs. Margir jöklar þekja
einnig landssvæðin umhverfis Íshafið. Langstærstur
er hinn víðáttumikli Grænlandsjökull,
sem þekur 1,7 milljón ferkílómetra og
er allt að 3200 metrar á þykkt. Rúmmál
þessa mikla jökulmassa er hvorki meira né minna
en 2.8 milljónir rúmkílómetra. Ístungur
teygja sig niður fjallshlíðar í Noregi, Úralfjöllum,
Kolyma, Alaska, Yukon og á Baffin eyju, þó nokkuð
suður af heimskautsbaug. |
|
Þykk snjóalög hylja
landið næst hafinu, en mun snjóléttara er
inn til landsins. Þar eru víðáttumiklar
eyðimerkur og hrjóstur heimskautsins þar sem sauðnaut
og hreindýr þrjóskast við að krafsa
gegnum hjarnið sér til fæðu. Þar flakka
úlfar og refir í leit að æti og ísbirnurnar
liggja í dvala og fæða húna í snjóbyrgjum
sínum. Undir frosnum jarðveginum leynast þykkir
klakadrönglar í sífreranum sem aldrei lætur
bilbug á sér finna næst heimskautinu, en rofnar
árstíðabundið er sunnar dregur. Ísinn
sem hylur djúp stöðuvötn, fljót og höf
þekur vatn sem er yfir frostmarki, þótt í
andrúmsloftinu sé frostið 50 stig á Celsíus
eða jafnvel enn harðara. |
|
Með nýrri árstíð
rís sólin yfir sjóndeildarhringinn og varpar
bjarma sínum á heimskautasvæðin, hitar loftið
og bræðir hafísinn sem sífellt þynnist
og hverfur að lokum. Á landi bráðnar ís
og snjór, árnar flæða yfir bakka sína
og leysingavatnið lækkar bæði seltu og hitastig
sjávarins næst ströndinni. Kaldur, seltuminni
sjór streymir í hringrás um Íshafið
og ryður sér leið undir hlýrri sjó
á yfirborðinu gegnum þröng sundin er liggja
að Atlantshafi og Kyrrahafi. Hvalir og selir leggja leið
sína í norðurátt, færandi hvítabjörnum
björg í bú. Á landi verma sólargeislarnir
gróðurþekjuna og berangurinn og loftið hlýnar
smám saman. Litríkur gróður sprettur upp,
nánast "á einni nóttu" - sumpart
reyndar vegna þess að ekki er um neina nótt að
ræða. Hreindýr á faraldsfæti, gæsir,
endur og vaðfuglar snúa til baka til að gæða
sér á nýgræðingnum og skordýramergðinni.
Lax syndir upp árnar og birnir fá fylli sína.
En undir yfirborðinu er jarðvegurinn lengur að hlýna.
Efsta lagið bráðnar og verður "virkt"
morandi í örverum og skordýralirfum og lífræn
efni taka að rotna ofan á sífreranum. |
|
Svona er vistkerfi heimskautsins.
Frerasvæðið. Það er tiltölulega sjálfbært
(Miðjarðarhaf norðursins) lofthjúpur, land, ferskvatn
og sjór; allt er þetta í nánu sambandi,
bæði með lóðréttum og láréttum
tengslum. Það er hringrás innan svæðisins
frá landi til vatns, svo til sjávar og aftur til baka.
Það er hringrás íss og sjávar, efnabreytinga,
dýra og jurta að ógleymdum mannverum innan Íshafsins
og umhverfis það. Ef hróflað er við einum
þætti kerfisins, munu áhrifin segja til sín
innan annarra þátta. Ef loftslag breytist - eins og
ávallt hefur gerst - og fer hlýnandi,mun meira leysingavatn
streyma inn í Íshafið. Hrynji loðnustofninn
í hafinu munu áhrifin koma fram á landi, gegnum
fæðukeðjuna. Ef spilliefnum er sleppt út í
andrúmsloftið eða hafið á einum stað,
má búast við að þau berist vítt
og breitt um svæðið. |
|
Hér er um að ræða
eitt gríðarstórt, samhæft, sívirkt
vistkerfi sem knúið er af orku sólarinnar. |
|
En það er ekki aðskilið
og einangrað frá öðrum svæðum jarðar
- ekkert vistkerfi starfar algerlega út af fyrir sig. Vistkerfi
heimskautsins teygir sig þrep fyrir þrep yfir til suðlægari
breiddargráða og hefur áhrif á það
sem þar gerist. Loftmassi heimskautsins beinir köldu
lofti til suðurs á vetrum, og suðrænir vindar
flytja hlýtt loft, sem ber í sér mengun, í
norðurátt. Spendýr, fuglar og fiskar stefna
norður í hópum til að finna sér fæðu
og koma upp afkvæmum við ísröndina og strendurnar,
í óshólmum og mýrlendi, en öll
eiga þessi svæði það sameiginlegt að
þar er nóg um lífsbjörgina. Síðan
er haldið aftur suður til vetrardvalar. Sjórinn kólnar
er hann streymir í norður og kalt ferskvatnið, sem
verður til er ís og snjór bráðnar,
viðheldur hinu mikla "færibandi" hafsins - hitahringrás
sjávar - sem hefur veruleg áhrif á loftslag
inn til landsins, engu síður en á hafsvæðin. |
|