|
Framtíðin:
Alþjóðavæðing norðurslóða
Lokaorð |
|
Síðasti áratugur
tuttugustu aldarinnar hafði í för með sér
sívaxandi áhuga á norðursvæðum,
sem ekki takmarkast við þær þjóðir
sem eiga lönd á þessum svæðum. |
|
Í fyrsta lagi eru vísindamenn
að byrja að gera sér grein fyrir því
hve mikilvæg heimskautalöndin eru til að efla skilning
á gróðurhúsaáhrifunum, vandamáli
sem tengist öllu mannkyni. Ef það er rétt
að hitastig fari smám saman hækkandi á jörðinni,
ætti, að sögn vísindamanna, að sjá
þess skýrust merki í hægfara bráðnun
heimskautaíssins. |
|
Í öðru lagi hefur
aukið frelsi í Rússlandi opnað stór
svæði í heimskautalöndunum sem voru í
raun lokuð áður fyrr. Nýtt tímabil
er runnið upp í alþjóðarannsóknum,
stjórnmálasamskiptum ríkja og viðskiptum.
Í stað þess að Bandaríkjamenn og Rússar
ógni hver öðrum með kjarnorkuflaugum sem miðað
er þvert yfir Norðurpólinn, geta þeir nú
einbeitt sér að því að sigrast á
tæknivandamálum í tengslum við að gera
Íshafið að alþjóðlegu siglingasvæði.
Í frægri ræðu í Murmansk 1987 lagði
Mikhail Gorbachev til að heimskautalöndin sameinuðust
um að mynda kjarnorkulaust svæði og gerðu sameiginlega
áætlun um nýtingu náttúruauðlinda,
umhverfisvernd og leiðir til að tryggja réttindi
frumbyggja. "Andrúmsloft slíkrar alþjóðasamvinnu,"
sagði hann, "ætti að einkennast af hlýjum
Golfstraumi evrópskrar samvinnu, en ekki af pólköldum
anda tortryggni og hleypidóma." |
|
En jafvel hin glæstasta alþjóðlega
áætlun getur ekki náð fram að ganga,
nema hún taki mið af þörfum og óskum
íbúa á viðkomandi svæði. Undirokun
frumbyggja í meira en þrjár aldir vegna ríkjandi
utanaðkomandi hagsmuna hefur valdið alvarlegri félagslegri
röskun, sem tíðum hefur birst í formi þunglyndis,
áfengissýki og ótímabærs dauða.
Á síðastliðnum þremur áratugum
hafa hópar innfæddra hafið baráttu fyrir
dómstólum til að ná yfirráðum
yfir eigin landi. Þeir gera, eftir bestu getu, kröfur
um greiðslur fyrir málma sem unnir hafa verið úr
jörðu, fullnægjandi mengunarvarnir til að vernda
heilsu barna sinna, kennslu barnanna á þeirra eigin
tungumáli og óskertan rétt til veiða. |
|
Minni hópar innfæddra
sem búa í stórum iðnríkjum segjast
búa í "fjórða heiminum". Orðalagið
vísar til fátæku landanna í hitabeltinu
sem mynda "þriðja heiminn" og því
er ætlað að leggja áherslu á vanmátt
þeirra. Nú hafa þeir myndað samtök minni
þjóðflokka til að auka styrk þeirra og
bæta samningsstöðu. Indíánarnir í
Mackenzie dalnum í Kanada sameinuðust á áttunda
áratugnum og kölluðu sig Dene þjóðina.
Margar þessara hreyfinga ná þvert yfir landamæri.
Á níunda áratugnum gengu Samar í Noregi,
Svíþjóð og Finnlandi í bandalag og
stofnuðu þing Sama. Þjóðflokkur Inúíta
sem nefnist Yuit og bjó í Alaska og Síberíu
hafði verið klofinn sundur með lokuðum landamærum
síðan í seinni heimsstyrjöldinni, og það
var ekki fyrr en 1988 að heimsóknir milli landanna voru
leyfðar. Til þess tíma töluðu Yuit táningar
í Síberíu einungis rússnesku sem var
tungumál kvikmynda, tímarita og danshúsa. Þeim
fannst tunga foreldra sinna og forfeðra gamaldags og sveitaleg.
Þegar fyrsti hópur Yuita kom frá Alaska, gat
gamla fólkið rætt við þá reiprennandi,
en hinir yngri skildu ekkert sem um var talað. Þá
rann það allt í einu upp fyrir þeim að
rússneska var ekki alþjóðlega tungumálið,
heldur tunga foreldra þeirra. Þegar skólinn byrjaði
um haustið naut kennsla í tungumáli Yuita yfirburða
vinsælda! |
|
Kannske eru mikilvægustu fjórða
heims samtökin "the Inuit Circumpolar Conference"
(ICC) eða Alþjóðasamtök Inúíta
sem sameinar 100,000 Inúíta sem búa á
mörgum svæðum í Alaska, Kanada, Grænlandi
og Rússlandi. Samtökin voru stofnuð 1977 og þeim
hefur síðan vaxið fiskur um hrygg. Nú berjast
þau fyrir bættum réttindum Inúíta
og leitast við að tryggja að raddir þeirra heyrist
varðandi ákvarðanir sem tengjast hagsmunum þeirra.
Stefna samtakanna tekur til margra málaflokka, allt frá
stjórnun og eftirliti vegna villtra dýra sem endurnýjanlegrar
auðlindar, til baráttu þeirra sjálfra fyrir
því að öll heimskautalöndin verði
kjarnorkulaust svæði. Inúítar vita að
strandlengjur heimskautalandanna verða aðsetur afkomenda
þeirra og þeir geta ekki treyst neinum öðrum
til að tryggja að annast verði um þetta umhverfi
með eðlilegum hætti. Þeirra umönnun er
ekki í því fólgin að menga umhverfið
eins og iðnríkin myndu gera, né að loka það
af sem eins konar friðland villtra dýra eins og sumir
umhverfissinnar vilja, heldur að halda því í
byggð, svo það verði nýtanlegt þeim
sem kunna að varðveita eiginleika þess. |
|
Í heimi nútímans
eru heimskautasvæðin krefjandi verkefni fyrir mannkynið.
Þörf er á sérstökum skilningi og sértækri
stefnu vegna óblíðs umhverfis, endalausra vegalengda
og fjarlægð frá höfuðborgum þjóðríkjanna
í suðri. Leita verður sanngjarna leiða til að
ákvarða eignarrétt og nýtingu lands, vatnsfalla,
stöðuvatna, hafsvæða, skóga og annarra
náttúruauðlinda. Hver hefur rétt til að
ákveða hvort slík svæði skuli nýtt
til námuvinnslu eða til fiskveiða? Allt er undir
því komið hvort fólkið á þessum
svæðum getur átt þátt í ákvarðanatöku
og hvernig til tekst að leysa úr málum þegar
skerst í odda. Í þessu sambandi er það
meginatriði að styrkja lýðræðislega
kjörin stjórnvöld í heima í héraði.
Þetta má gera gegnum sveitastjórnir, eins og
t.d. North Slope Borough héraðsstjórnina í
Alaska sem hefur a.m.k. nokkrar tekjur af olíunýtingu
á landi innan síns umdæmis; eða með
því að styrkja áhrif frumbyggja, eins og
í hinu nýja kanadiska héraði Nunavut, heimalandi
Inúíta, þar sem frumbyggjar eru í meirihluta,
eða í Síberíulýðveldinu Sakhaia,
þar sem Rússar eru tvisvar sinnum fleiri en þeir
300,000 Sakhar sem þar búa, en Sakhar hafa engu að
síður veruleg áhrif í stjórnkerfinu. |
|
Slík svæðisbundin
sjálfsstjórn er nátengd málefnum sem
upp koma bæði á þjóðlegum og alþjóðlegum
vettvangi. Þarfir stórborganna í suðri snerta
beinlínis þorpin, veiðimennina og hjarðmennina
í norðri. Leitin að olíu, timbri og öðrum
hráefnum hefur bein áhrif á ytra umhverfi þessa
fólks. En sunnanmenn flytja líka andleg áhrif
norður á bóginn, með skólaskipan sinni,
sjónvarpi og öllu því prjáli sem
fylgir neytendamenningunni. Og norðanmenn verða að átta
sig á hvernig best sé að bregðast við
öllu þessu, því ekki verður það
umflúið. Stundum einkennast viðbrögð þeirra
að deyfð og örvæntingu, og vissulega er ástæða
til að hafa áhyggjur af tíðni sjálfsmorða
á norðurslóðum. En góður árangur
samtaka á borð við Alþjóðasamtök
Inúíta og hin nýju rússnesku samtök
íbúa á norðursvæðum, gefur til
kynna að íbúar heimskautalandanna séu líka
að sporna við fótum. |
|
Eins og við öll, vilja Inúítar,
Eveny þjóðin og aðrar heimskautaþjóðir
eiga kost á lífsfyllingu og ánægju í
heimi nútímans um leið og þeir gefa börnum
sínum tækifæri til að njóta góðra
lífsskilyrða á eigin heimaslóðum. Hefðbundin
viðhorf þeirra til tengslanna milli manna og dýra
virðast í vaxandi mæli vera okkur öllum góð
fyrirmynd, um leið og heimurinn smám saman hverfur frá
hugmyndinni um að sigra náttúruöflin og finnur
sér í staðinn það markmið að
lifa í góðu sambandi og samstarfi við náttúruna. |
|