The ArcticMainpage
Smellið til að sjá stærra
PDF-útgáfa af þessari grein
PDF-útgáfa
af þessari grein
Norðrið sem heimaland
eftir Piers Vitebsky
KAFLAR:
  Næsti kafliNæsti kafli
Land og frumbyggjar á norðurslóðum
Smellið til að sjá stærra
Skógi vaxin Kyrnys-dy eyja í grennd við fljótið Kolva-Vis, í Nenets sjálfstjórnarhéraði.
Það er síðla vetrar og frostið er 40 gráður á Celsíus. Sjórinn er frosinn allt að tvo km. út frá ströndinni. Langt úti á ísnum er veiðimaður einn síns liðs að mjaka sér á átt að sel sem hefur komið upp í gegnum gat á ísnum til að anda og liggur nú á ísbreiðunni. Veiðimaðurinn, sem ýtir á undan sér riffli, leynist undir hvítri segldúkspjötlu. Ekki sjást þess merki að neinn sé undir segldúknum, að undanskildu smáskýi sem þéttist yfir honum og stafar af andardrætti hans. Ef hann er heppinn og kann til verka mun selurinn ekki veita honum athygli fyrr en það er um seinan.
Á meðan bíða þrír hreindýrahirðar á vindblásinni hæð, mörg þúsund kílómetra frá sjó. Þeir grandskoða fjöllin í kring í sjónauka. Langt í burtu sjá þeir tvo aðra hjarðmenn á hreindýrsbaki. Þeir smjúga liðlega milli grannra lerkistofnanna sem virðast vera teiknaðir með svörtum pennastrikum í hvítan snjóinn. Þeir hafa fundið hluta hjarðarinnar og eru nú að reka dýrin í átt til mannanna. Loks heyrist blístur mannanna og rymjandi hljóð hreindýranna. Fyrstu dýrin birtast hvert af öðru milli trjánna og feldirnir renna í felulitum saman við snjóinn og hrjúfan, grábrúnan trjábörkinn. Skyndilega ráðast þeir sem bíða til atlögu með slöngvivaði að vopni. Þeir skilja nokkur dýranna frá og safna öðrum saman til upprekstrar á aðrar beitilendur.
Smellið til að sjá stærra
Ungur hreindýrahirðir af Eveny þjóðflokki heldur hreindýri niðri meðan annar hirðir hugar að meiðslum á fótum dýrsins.
Veiðimaðurinn á ísnum tilheyrir þjóðflokki er nefnist Inúítar, á þeirra máli merkir orðið einfaldlega "fólk". Inúítar eru þjóðflokkur sem utanaðkomandi fólk kallar ennþá Eskimóa, en þeir eru flestir lítt hrifnir af þeirri nafngift.
Samfélög sem nefnast öðrum nöfnum, en eru skyld Inúítum, búa á ströndum Grænlands og Alaska og einnig í Síberíu í Rússlandi. Hreindýrahirðarnir tilheyra Eveny fólkinu, mjög frábrugðnum þjóð sem býr í fjöllum Norðaustur-Síberíu. Inúítar og Eveny are aðeins tveir af mörgum tugum þjóða frumbyggja á heimskautasvæðunum sem hafa búið þar svo lengi að þeir líta á þessi svæði sem sitt land. Þótt margir búi í þéttbýli, tileinka þeir sér enn lifnaðarhætti sem byggjast að verulegu leyti á sel- og hvalveiðum eða hjarðmennsku með hreindýr.
Smellið til að sjá stærra
Í grennd við Hornsund, Suður-Spitzbergen.
Þeir sem lifa svona lífi hljóta að líta á nátturuna sem samherja, en ekki andstæðing. Þeir þurfa að hafa til að bera næman skilning á háttalagi dýranna sem þeir umgangast. Landið sjálft á einnig sín tilbrigði sem nauðsynlegt er að skilja. Á stuttu heimskautasumri, rær ungur Inúít veiðimaður kajak sínum hljóðlaust eftir spegilsléttum sjávarfletinum og skimar eftir ummerkjum sem gefa til kynna að selur sé á sundi. Hann verður að hugsa eins og selurinn og reyna að ímynda sér hvar hann muni koma upp. Ein vanhugsuð hreyfing og selurinn er á bak og burt. En hafið býr líka yfir hættum og margir veiðimenn drukkna þegar sviptivindar hvolfa kajökum þeirra.
Smellið til að sjá stærra
Hind með kálf.
Á sumrum hinna björtu nátta þurfa hreindýrahirðarnir að verja nýfædda hreindýrskálfana fyrir árásum úlfa og bjarndýra; stundum þarf að ráðast til atlögu gegn þessum villidýrum. Taktur tilverunnar á heimskautasvæðunum einkennist af löngum tímabilum lítilla viðburða sem reyna á þolinmæðina. En á milli koma tilvik þar sem allt gerist í skjótri svipan og þörf er mikillar leikni og áræðis ef ekki á illa að fara.
Fólk sem býr utan heimskautasvæðanna hrífst yfirleitt af þessum ógnarstóru óbyggðum. Oft finnst fólki að ekkert mannlegt líf fái þrifist í þessari miklu auðn. Engu að síður hafa lítil samfélög búið á þessum svæðum í mörg þúsund ár. Íbúarnir hafa flutt sig til með reglubundunum hætti til að fylgja eftir dýrunum sem líf þeirra er svo nátengt.
Svæðið getur aðeins borið uppi mjög fámenna, dreifða byggð og flestir þessara þjóðflokka telja ekki nema nokkur hundruð eða fáeinar þúsundir hver. En ef talin eru með nýleg og miklu stærri samfélög aðkomumanna í náma- og héraðsstjórnarbæjum, búa nokkrar milljónir manna á heimskautasvæðunum og í næsta nágrenni þeirra. Í þessum héruðum er mikil náttúruleg, menningarleg og pólitísk fjölbreytni - svo og fegurð og mikilleiki. Aðflutt fólk úr suðri staldrar venjulega aðeins í fáein ár, en frumbyggjarnir eiga hér sínar heimaslóðir.
Smellið til að sjá stærra
Hansabreen jökullinn, Suður-Spitzbergen. Myndina tók Andrzej Kaim, júlí 1998
Heimskautasvæðin má skilgreina með ýmsu móti. Mörkin milli tempraða beltisins og kuldabeltisins eru óljós og einkennast af breiðu belti sem á það sameiginlegt með heimskautasvæðunum að vetur eru langir og kaldir og sumur eru stutt, en oft fremur hlý. Um Norðurheimskautið og næsta nágrenni er gjarna notað sameiginlega heitið "Löndin umhverfis norðurpólinn", eða "norðurslóðir". Heimskautalöndin eru stundum skilgreind sem svæði þar sem frost fer aldrei úr jörðu, jafnvel ekki yfir hásumarið. Einnig má skilgreina heimskautalöndin sem svæðin norðan við skógarmörk, eða trjálínu, þ.e. þar sem skógur getur ekki vaxið.
Samkvæmt báðum þessum skilgreiningum myndu mörk heimskautasvæðanna liggja sunnar en hinn svonefndi heimskautsbaugur, en hann er ímynduð lína sem dregin er á kort á breiddargráðunni 66° 33' norður. Hér sígur miðnætursólin niður að sjóndeildarhringnum eina nótt, en hverfur ekki niður fyrir hann. Þetta er hin fræga miðnætursól. Þegar farið er lengra norður í átt að norðurpólnum, verða sumarnæturnar æ bjartari og lengst í norðri sest sólin ekki vikum eða jafnvel mánuðum saman og aldrei dimmir. Á þessum tíma er oft hlýtt í veðri. Fólk er þróttmikið og starfsamt og börnin geta leikið sér úti alla nóttina.
  Á veturna gengur í garð samsvarandi tími myrkurs. Á sjálfum heimskautsbaugnum er aðeins um að ræða einn dag á miðjum vetri þegar sólin kemur alls ekki upp. Lengra í norðri varir heimskautanóttin í margar vikur eða mánuði og er þá alls engin dagsbirta. Á þessum tíma er líka ískuldi. Margir hjarðmenn og veiðimenn halda sig úti á slóðum dýranna, en flestir aðrir eru sem mest innan dyra. Oft er fólk sljótt og niðurdregið. Í lok vetrar gengur fólk á sumum svæðum upp á nærliggjandi hæð og bíður með óþreyju eftir fyrstu sólarupprás vorsins.
Smellið til að sjá stærra
Íshafið í grennd við Spitzbergen. Myndina tók Andrzej Kaim, júlí 1998
Fyrir íbúa þessara svæða myndar heimskautsbaugurinn heldur ekki skörp skil og bæði heimskautalöndin og nærliggjandi héruð sunnan þeirra verða hér talin vera eitt samfellt svæði sem hefur að geyma margar og mismunandi lendur sem hér verður fjallað um undir hinu almenna heiti "Norðurslóðir".
Hjarta heimskautsins er Íshafið. Þetta haf er að miklu leyti landlukt, eins og norðlægt Miðjarðarhaf. Þröng sund eru milli kanadísku eyjaklasanna og milli Alaska og Síberíu með rýmri opnun út í Norður Atlantshafið. Miðhluti Íshafsins, en þar situr sjálfur Norðurpóllinn, er þakinn samfelldum ís sem rýrnar og vex eftir árstíðum og eykur þannig við hina ísilögðu auðn um tugi eða hundruð ferkílómetra.

Smellið til að sjá stærra
Lerkiskógur Kuyukhta fjalli, 60 km frá borginni Noril'sk í rússneska ríkjasambandinu. Myndina tók Olga Tutubalina, júlí 1997

Smellið til að sjá stærra
Í hefðbundnum tjöldum Eveny hreindýrahirða.

Landið milli stranda íshafsins og skógarmarkanna er kallað túndra. Hér gnauða tíðum hvassir hafvindar og því er allur gróður lágvaxinn; grös, mosar, skófir og dvergrunnar. Inúítarnir sem lýst var í upphafi þessa kafla búa á nyrstu mörkum túndrunnar, á sjálfri Íshafsströndinni. Sunnan trjálínunnar vex skógur sem í Síberíu nefnist taigá. Trén eru að mestu sígræn barrtré, en einnig er um lauftré að ræða, birki og víði. Hér, lengra inni í landi, er vindurinn ekki eins hvass, en meginlandsloftslaginu fylgja gjarna mun meiri vetrarkuldar en á túndrunni. Mesta frost á norðurhveli, um 70 stig á Celsíus hefur verið skráð í Verkhoyansk og Oymyakon í Norðaustur Síberíu, sitt hvorum megin við heimskautsbauginn. Á þessum slóðum býr Eveny fólkið sem lýst var hér að ofan.
Átta ríki eiga landsvæði sem er annaðhvort innan heimskautsbaugs eða nánast snertir hann: Rússland, Bandaríkin, Kanada, Danmörk (Grænland), Noregur, Svíþjóð, Finnland og Ísland. Langstærst þessara ríkja er Rússland (áður Sovétríkin). Rússnesku norðurhéruðin ná yfir um það bil helminginn af 22,7 milljón ferkílómetra svæði Sovétríkjanna fyrrverandi. Í þessum landshlutum er stór hluti íbúa norðlægra slóða svo og flestar borgirnar. Næststærst eru kanadísku norðursvæðin, 7,1 milljón ferkílómetra að stærð, eða um 70% af öllu Kanada. Alaska, eitt af ríkjum Bandaríkjanna, nær yfir 1,5 milljón ferkílómetra svæði sem er nánast allt norðlægrar ættar. Landfræðilega er Alaska framhald kanadísku norðurhéraðanna, aðeins aðskilið af landamærum. Upphaflega var Alaska rússnesk nýlenda, en þeim fannst það of fjarri höfuðborginni, Pétursborg, og seldu það Bandaríkjamönnum árið 1867, fyrir aðeins 6 milljónir dollara.
Á Grænlandi eru 55,000 íbúar, flestir Inúítar. Landið varð dönsk nýlenda á átjándu öld og fékk "heimastjórn" 1979, sem veitir íbúunum takmarkað sjálfstæði. Noregur, Svíþjóð og Finnland eiga sín norðurhéruð þar sem aðfluttir íbúar úr suðri blandast Sömum, frumbyggjum þessara svæða (Þeir eru einnig nefndir Lappar). Hrjóstrug strönd Noregs snýr mót norðaustri í átt að Íshafinu. Héðan lögðu víkingar upp til að nema land á Íslandi, þar sem afkomendur þeirra búa enn í dag. Víkingarnir höfðu einnig aðsetur á Grænlandi um tíma.
  Öll þessi lönd (að undanskildu Finnlandi og Svíþjóð, sem ekki eiga strandlengju að Íshafi) liggja hvert andspænis öðru beggja vegna Íshafsins. Það var hins vegar ekki fyrr en á síðari hluta tuttugustu aldar, vegna flugsamgangna og þróunar langdrægra kjarnorkuflugskeyta, að staðsetning þessara landsvæða tók að skipta miklu máli, þar sem stysta leiðin milli Rússlands og Bandaríkjanna lá þvert yfir Norðurpólinn. Fram að þeim tíma höfðu norðurhéruð þessara landa legið á ystu mörkum annars konar heims sem ávallt beindi sjónum sínum í suðurátt. Vegna breyttra viðhorfa í stjórnmálum á síðustu tímum verðum við nú vitni að því að þessi svæði eru í fyrsta sinn í sögunni að þróa sína eigin sterku ímynd og mynda þannig mótvægi gegn suðrinu. Til þessa liggja ýmsar ástæður, og verða tvær þeirra ræddar nánar í lokakaflanum. Önnur er nýr skilningur okkar á sérstöku hlutverki heimskautasvæðanna í tengslum við rannsóknir á hlýnandi veðurfari jarðarinnar. Hin ástæðan er að Rússland hefur opnað sig fyrir umheiminum frá upphafi perestroika árið 1985.

Smellið til að sjá stærra
Stórskemmdur gróður á túndru og skógarsvæði í Noril'skaya fljótsdalnum.

Smellið til að sjá stærra
Lífvana skógur, 55 kílómetra suðaustur af Noril'sk - eyðileggingin stafar af útblæstri brennisteinsdíoxíðs frá námu- og málmvinnsluverinu í Noril'sk.

Umhverfi norðurslóða er einstakt. Þar eru færri tegundir jurta og dýra en á nokkru öðru svæði í heiminum. Hins vegar getur verið um að ræða mikinn fjölda einstaklinga á tilteknum stað. Lágt hitastig og stutt sumur valda því að jurtir geta aðeins vaxið nokkrar vikur á ári. Það getur tekið skófirnar sem hreindýrin lifa á að vetrarlagi allt að þrjátíu ár að vaxa upp aftur og dvergvíðitré sem er aðeins fáeinar tommur á hæð getur verið hundrað ára gamalt.
Þessi hæga endurnýjun gerir umhverfið viðkvæmt og auðsæranlegt. Sífrerinn í jarðvegi túndrunnar bráðnar ekki vegna þess að gróðurþekjan verndar hann. Ef hjólför eftir aðeins eitt ökutæki rjúfa gróðurþekjuna, getur farið svo að jarðvegurinn þiðni, rofni og myndi rás sem fer sífellt stækkandi ár frá ári. Í næstu heimsókn þarf farartækið að krækja framhjá skorningnum og á sumum svæðum þar sem fer fram gas og olíuvinnsla hafa hjólför þungra vinnuvéla myndað "götur" sem eru tæpur kílómetri á breidd. Umhverfið er ekki síður viðkvæmt fyrir mengun. Það getur tekið olíu sem dreifist fyrir slysni mörg ár að umbreytast í óskaðleg efni, í stað mánuða eins og gerist í hlýrra loftslagi.
Er landið teygir sig í suður frá Íshafinu í átt til tempraða beltisins, má greina mismunandi einkennissvæði. Hvert um sig hefur sinn sérstaka gróður, dýralíf og menningu. Ströndin er heimur kletta, sjávar og íss þar sem landið er fátækt en sjórinn stundum gjöfull á auðævi. Hvalir og selir eiga leið um á árvissum ferðum sínum úr hlýrri höfum og sums staðar er gnægð fiskjar. Inn til landsins er skóglaus túndran þar sem mikil mergð fugla hefst við. Þar er líka beitiland fyrir hjarðir villtra dýra og taminna hreindýra. Lengra til suðurs, þar sem skógar geta vaxið, er fjölbreytt landslag með stöðuvötnum og ám sem streyma um um skógi vaxnar lendur þar sem snjóþungt er á vetrum. Hér eru á reiki stór villt dýr sem líkjast hreindýrum (sem í Norður Ameríku nefnast caribou), elgir, brúnir birnir og fjöldi smárra loðdýra. Fiskur veiðist í ám og vötnum.

Smellið til að sjá stærra
Fiskveiðar á Kamchatka fljóti í rússneska ríkjasambandinu.

Smellið til að sjá stærra
Gömul Eveny kona vinnur úr hreindýrsskinni.

Sú hugmynd að rækta korn og grænmeti, svo ekki sé nú minnst á mataræði þeirra sem aðeins neyta fæðu úr jurtaríkinu, hefur aldrei átt fylgi að fagna á norðurslóðum. Hér lifir enginn af nema hann leggi sér til munns afurðir dýra og fiskjar. Kjötið hefur líka þann kost að í því er nóg af prótíni og orku sem nauðsyn krefur í svona loftslagi.
Dýrin leggja líka til megnið af fatnaði og efnivið til áhaldagerðar og húsa.
Veiðar, hjarðmennska og daglegt amstur í þessu óblíða umhverfi, gerir harðar kröfur til karla, kvenna og barna. Margir þjást af berklum og öðrum lungnasjúkdómum. Þetta er líka vettvangur voveiflegra hörmunga og margir deyja af slysförum. Menn geta orðið úti í stórhríð á berangri; Sumir hverfa niður um vakir á sleðaferðum yfir ísilögð vötn; jafnvel snjall veiðimaður nær kannski engri bráð dögum saman og sveltur ásamt fjölskyldu sinni. Það er ekki að undra þótt öll tilbrigði menningar á norðlægum slóðum meti mikils nákvæma þekkingu á staðháttum, svo og samhjálp og aðstoð við fæðuöflun - slíkt er einkennandi fyrir veiðimannasamfélög um víða veröld.
Næstu tveir kaflar munu kanna grundvallarmuninn á frumbyggjum og Evrópubúum sem hafa smátt og smátt náð yfirráðum yfir þessum svæðum á síðastliðnum 3-4 öldum. Það var einungis á síðustu þrem öldum sem Evrópumenn hófu að setjast að á norðurslóðum. Hér var um að ræða sams konar útþenslu- og nýlendustefnu og leiddi þá til hitabeltislandanna. Heimskautasvæðin eru heimalönd frumbyggjanna, en fyrir aðkomumenn eru þetta nýnumin landsvæði og flestir þeirra hyggjast ekki búa þar ævilangt. Þessi munur hefur skipt æ meira máli síðan á sjöunda áratugnum, þar sem stóraukin iðnvæðing og fólksflutningar hafa orðið til þess að frumbyggjar hafa í vaxandi mæli komist í minnihluta í sínum eigin heimalöndum.
  Næsti kafliNæsti kafli
The Arctic is a Homeland, by Piers Vitebsky. http://www.thearctic.is
Copyright Stefansson Arctic Institute and individual authors ©2000
Developed in partnership with the EU Raphael Programme