|
Deilur um land
og auðlindir í heimi nútímans
Greint á milli endurnýjanlegra og óendurnýjanlegra
auðlinda |
|
Ólík menningartengsl
og mismunandi dvalartími á heimskautasvæðunum
hafa áhrif á afstöðu fólks til náttúrunnar
og auðlinda hennar. Frá sjónarhorni frumbyggja
ber að virða náttúruna, stundum jafnvel að
óttast hana. Í máli Inúíta í
Kanada er til orðið ilira sem merkir lotning. Náttúran
miðlar mönnunum af auðlegð sinni, en aðeins
ef henni er sýnd virðing í staðinn. Samkvæmt
hinum evrópska hugsunarhætti, hins vegar, er gjarna
litið svo á að sigrast þurfi á náttúruöflunum.
Mörgum aðkomumönnum finnst að bæði landið
og dýrin séu mönnunum til frjálsra afnota,
án þess að nokkrum beri að þakka. |
|
Það getur verið gagnlegt
að flokka auðlindir sem endurnýjanlegar eða óendurnýjanlegar.
Endurnýjanlegar auðlindir eru t.d. dýr og jurtir
sem óhætt er að nýta að vissu marki,
þar sem þær munu vaxa upp aftur og endurnýjast.
Ef dýrin eru veidd að sama marki og þau fjölga
sér og tré höggvin í takt við endurnýjun
skógarins, munu þessar auðlindir ekki eyðast
og íbúarnir geta haldið áfram að hafa
af þeim viðurværi. Sé hins vegar gengið
á auðlindirnar uns þær eru uppurnar getur
ekki orðið um frekari nýtingu að ræða.
Fólkið sem lifði á þeim verður að
yfirgefa svæðið og flytja annað. |
|
Munurinn á endurnýjanlegum
og óendurnýjanlegum auðlindum samsvarar nokkurn
veginn nýtingu frumbyggja á heimskautasvæðunum,
annars vegar, og aðkomumanna, hins vegar. Sér í
lagi tengist áhersla á endurnýjanlegar auðlindir
sjónarmiðum samfélags sem hyggst hafa aðsetur
á svæðinu kynslóðum saman og sem vill
stjórna nýtingu auðlindanna fyrir barnabörn
sín ekki síður en núlifandi íbúa.
Þetta getur hins vegar ekki verið viðhorf námumanns
sem dvelur fáein ár í ókunnu landi sem
hann tengist engum varanlegum böndum. Auðvitað er það
svo að frumbyggjar hafa áhrif á umhverfið
og spilla því jafnvel. Þetta getur átt
við um öll samfélög manna og jafnvel dýr
í stórum hópum. Hins vegar geta áhrif
nútíma þjóðfélags haft í
för með sér miklu meiri eyðileggingu vegna vélvæðingar
þess. Einnig liggja til þessa efnahagslegar ástæður.
Eins og fjallað verður um síðar, er sérlega
freistandi að ganga ótæpilega á auðlindir
heimskautasvæðanna. |
|