|
Deilur um land
og auðlindir í heimi nútímans
Annar kostnaðarliður: mengun innan svæðisins
og annars staðar frá |
|
Vinnsla auðlinda hefur í
för með sér mengun og umhverfisspjöll. Í
Valdez varð skelfilegt mengunarslys 1988 er olíuskip
strandaði á skerjum og eyddi öllu sjávarlífi
á stóru svæði. Talsmaður Khanty þjóðflokksins
sem býr í grennd við olíuvinnslusvæði
í Vestur Síberíu hefur lýst því
hvernig mengun fer stigvaxandi á löngum tíma
þegar tveggja tommu þykkt lag af olíu flýtur
eftir yfirborði ánna og eyðir öllu lífi
sem það kemst í snertingu við. Á þessu
eina litla svæði, telur hann að mengunin hafi spillt
28 ám og fljótum sem áður var unnt að
nýta til fiskveiða í atvinnuskyni. Einnig hafa
eyðilagst 10 milljónir hektara af beitilandi fyrir hreindýr.
Og það sem gerir ástandið enn verra er að
gas- og olíulindir finnast oft einmitt þar sem bestu
fiskimiðin eru. |
|
Hernaðaðgerðir hafa líka
spillt umhverfinu. Í "kalda stríðinu"
frá fyrri hluta sjötta áratugarins til síðari
hluta hins níunda jukust hernaðarumsvif á heimskautasvæðunum.
Herstöðvar hafa hindrað frjálsar ferðir
frumbyggja og í sumum tilvikum jafnvel hrakið þá
alfarið burt af heimaslóðum sínum. Einnig
hefur nágrenni slíkra stöðva oft verið
þakið alls konar rusli. Á þessum tíma
urðu kjarnorkutilraunir Rússa á eyjunni Novaya
Zemlya til þess að menga alvarlega beitilönd hreindýra
um allt norðanvert Rússland og Skandinavíu. |
|
Enn ekki verður öll mengun
í heimskautalöndunum til innan þeirra eigin svæða.
Verulegur hluti hennar er langt að kominn og á uppruna
sinn í iðnaðarborgum tempruðu beltanna. Þetta
er loftmengun sem berst til heimskautalandanna með ríkjandi
vindáttum eða vegna snúnings jarðarinnar.
Vera má að "óson gat" eins og það
sem fannst yfir suðurskautinu sé einnig að myndast
á norðurslóðum. Reykjarmóða sem
berst frá iðnríkjunum veldur "heimskautamistri"
og dýr og jurtir innbyrða eitruð efnasambönd.
Beitilönd hreindýra í Skandinavíu spilltust
1986 vegna geislavirks ofanfalls þegar sprenging varð
í kjarnorkustöðinni í Chernobyl, lengst suður
í Úkraínu. |
|
Eiturefnin smjúga inn í
fæðukeðjuna og þokast upp á við frá
svifi til hvala, eða frá skófum til hreindýra
og enda í fólki. Við hvert þrep verður
eiturefnið sterkara. Nú finnast selir við ströndina
sem innihalda hærra hlutfall kvikasilfurs en málmgrýtið
sem kvikasilfrið var upphaflega unnið úr. Þungmálmar
og önnur eiturefni eiga greiða leið með móðurmjólkinni
inn í líkama Inúíta barna. Inni í
landinu hefur tíðni krabbameins vaxið ört meðal
yngri kynslóða síberískra hreindýrahirða
vegna geislavirkni í kjötinu sem þeir nærast
á. |