The ArcticMainpage
Smellið til að stækka
PDF-útgáfa
PDF-útgáfa
af þessari grein
Heimskautalöndin eru að breytast
eftir Mark Nuttall
KAFLAR:
Fyrri kafliFyrri kafli Næsti kafliNæsti kafli
Þröskuldar á leið til sjálfbærrar þróunar: Heimskautasvæðin innan efnahagskerfis alþjóðasamfélagsins
  Norðurskautsráðið leggur áherslu á verndun umhverfisins og sjálfbæra þróun, sér í lagi með tilliti til áframhaldandi vinnu á því þeim grunni sem lagður var af AEPS, eins og fram kemur í sameiginlegri tilkynningu ráðsins:
 

Ráðherrar litu á stofnun þessa samstarfsvettvangs ríkisstjórna sem mikilvægan áfanga í viðleitni þeirra til að styrkja samvinnu landanna umhverfis norðurpólinn. Ráðið opnar leiðir til að fást við sameiginleg vandamál og ögrandi verkefni sem ríkisstjórnir og þjóðir heimskautasvæðanna verða að kljást við. Í þessu samhengi viku ráðherrarnir sérstaklega að umhverfisþáttum heimskautasvæðanna og sjálfbærri þróun sem aðferð til að bæta og styrkja efnahag, félagslíf og menningu á heimskautasvæðunum.

  En að hve miklu leyti er unnt að ná þessum markmiðum í ljósi þess að á dagskrá er fjöldi þróunarverkefna sem hvorki taka tillit til umhverfisverndar né sjálfbærrar þróunar og eru á engan hátt í anda samstarfs um umhverfismál á heimskautasvæðunum? Og hvernig er hægt að ná fram sjálfbærri þróun á heimskautasvæðunum sem eru orðin háð sveiflum alþjóðlegra efnahagskerfa? Þróun í stórum stíl heldur áfram á norðurslóðum, jafnvel þótt brennandi áhugi á þeim málum sem AEPS og Norðurskautsráðið hafa sett á oddinn kunni að hafa beint athyglinni frá henni um stundarsakir. En það eru ekki bara þjóðríkin er eiga lönd á norðurslóðum sem líta á svæðin umhverfis norðurpólinn með vaxandi áhuga varðandi þróun auðlinda. Fjárhagsleg framtíð heimskautasvæðanna er háð atburðum á alþjóðavettvangi og þróun efnahagsmála á heimsvísu. Þess vegna eru heimskautalöndin viðkvæm fyrir óstöðugleika heimsmarkaðanna.
  Í löndum eins og Japan, Kóreu og ESB ríkjunum eru markaðir fyrir verðmætar auðlindir heimskautasvæðanna. Þannig eru löndin umhverfis norðurpólinn fasttengd hinu alþjóðlega kerfi. Þéttbýl svæði jarðarinnar sem búa yfir fáum eða engum auðlindum geta ekki uppfyllt efnislegar þarfir vaxandi íbúafjölda. Þessi ríki líta til norðurslóða varðandi fiskveiðar, öflun kolvetna og málmvinnslu. Í Síberíu eru til dæmis 20% af skógarlendum heims og um 40% af barrskógum veraldar, og Beringshafið er meðal gjöfulustu fiskislóða í heimi
  En fiskistofnum í Beringshafi stafar ógn af viðskiptahagsmunum fiskiðnaðarins (ufsaveiðar voru lagðar af 1992 vegna ofveiði) og Bandaríkin eru aðeins ein þjóð af mörgum sem stuðla að spjöllum á vistkerfi Beringshafs. Ofveiði stórs alþjóðlegs fiskiskipaflota hefur einnig haft sín áhrif á vistkerfi hafsins á heimskautaslóðum Evrópu. Brýn þörf er á reglum um fiskveiðistjórnun, en það er eftirtektarvert að samvinna heimskautaríkja í umhverfismálum hefur ekki náð til fiskveiða. Óvíst er hvort Norðurskautsráðið fjallar um fiskveiðar í tengslum við sjálfbærar auðlindir. Einnig er ósamkomulag varðandi umhverfisáhrif fiskveiða í ábataskyni. Skýrsla sem gefin hefur verið út af Umhverfismálastofnun Evrópu the European Environmental Agency (EEA) gefur til kynna að fiskveiðar í ábataskyni hafi mest áhrif á vistkerfi hafsins, en skýrsla norrænu ráðherranefndarinnar Nordic Council of Ministers gengur þvert á niðurstöður umhverfismálastofnunarinnar og kemst að þeirri niðurstöðu að ofveiði á fiskimiðum í Evrópu hafi ekki skaðað fiskistofna.
  Þeirri vinnu sem AEPS átti frumkvæði að ásamt með ýmsum starfshópum innan samtakanna er nú fram haldið á vegum Norðurskautsráðsins. Fyrst og fremst er lögð áhersla á að fylgjast með áhrifum umhverfisvandamála á heimskautasvæðunum, gera skýrslur um aðstæður á norðurslóðum og koma þessum upplýsingum á framfæri við stjórnmálamenn, vísindamenn og samfélög heimamanna. Einnig er ætlunin að gera tillögur um aðgerðir stjórnvalda til verndunar umhverfisins og til stuðnings sjálfbærrar þróunar. Þótt það sé almennt viðurkennt að mörg umhverfisvandamál á norðurslóðum eiga upptök sín annars staðar, er engu að síður ljóst að samstarfsaðila um umhverfisvernd á norðlægum svæðum skortir mjög víðari heildarsýn yfir bæði svæðisbundna og hnattlæga þætti varðandi umhverfisbreytingar og óhóflegt álag á auðlindir. Það sem gerist annars staðar á jörðinni, skiptir ekki síður máli fyrir heimskautasvæðin. Umræða um umhverfismál norðurslóða heldur á lofti ímynd heimskautasvæðanna sem eins konar náttúrulegri rannsóknastöð til að kanna breytingar á lífkerfum jarðarinnar. (svona framsetning hentar vel til að rökstyðja styrkumsóknir til vísindastofnana eða rannsóknarráða), en tekur ekki með í reikninginn hve mikilvægt er að átta sig á því hvernig fátækt í þróunarlöndunum; eyðing skóga í Nepal, flóð í Bangladesh eða starfsemi fjölþjóðafyrirtækja í Suðaustur Asíu tengist framtíð heimskautasvæðanna, íbúum þeirra og auðlindum
  Helstu hættur sem blasa við vistkerfi heimskautasvæðanna eru fyrst og fremst til komnar vegna félagslegra aðstæðna sem eru afleiðing mannlegra athafna og vegna samverkana manns og umhverfis á afmörkuðum stöðum, stærri svæðum og jörðinni allri. En verkefni vinnuhópa sem AEPS hefur sett á stofn hefur verið að fylgjast með kerfisbundnum og sívaxandi áhrifum hnattlægra breytinga á tiltekið svæði, sem er vissulega geysistórt á landfræðilegan mælikvarða. Hóparnir hafa hins vegar síður leitast við að skilja þau flóknu félagslegu, efnahagslegu og pólitísku ferli sem liggja að baki breyttu umhverfi og auknu álagi á auðlindir jarðar. Þegar horft er til framtíðar, kæmi það sér vel í allri áætlanagerð um verndun náttúrufars og sjálfbæra þróun á heimskautasvæðunum að horfa ekki á heimskautalöndin ein og sér, heldur víkka sjóndeildarhringinn og leitast við að átta sig á efnahags-, félags- og umhverfistengslum milli heimskautalandanna og annarra svæða á jarðarkringlunni.
  Þeir sem ákveða hvaða verkefni á sviði umhverfisverndar setja skal á dagskrá verða að hafa allan heiminn í huga. Eins og við á nánast alls staðar, eru félagsmál, efnahagur og pólitík heimskautalandanna orðin nátengd því sem gerist á veraldarvísu. Í heimskautalöndum okkar tíma er nánast hvert svið tilverunnar aðlagað og mótað af atburðum, framvindu, ákvörðunum og athöfnum sem eiga sér stað í öðrum heimshlutum. Það nægir að líta á hlaðnar hillur í kjörbúð í Fairbanks, eða að fá sér kaffisopa með selveiðimönnum á hafísnum við Norður Grænland (en það á fyrir selskinnunum að liggja, eftir að konurnar hafa verkað þau, að verða flutt alla leið til Japan) til að átta sig á því að íbúar heimskautalandanna eru nátengdir neti framleiðslu og viðskipta sem þenur sig um víða veröld. Þar sem löndin umhverfis norðurpólinn sitja nú blýföst í flóknu kerfi heimsviðhorfanna, sem hafa áhrif á menningu þeirra, lífssýn, efnahag og stjórnmál er orðin brýn nauðsyn að skilja þessi ferli og þau málefni sem eru í brennidepli á heimsvísu, eins og t.d. íbúafjölda, tækniþróun, neyslu og lífsstíl. Vaxandi fólksfjöldi veldur auknu álagi á auðlindir jarðar og framleiðsla um heim allan fer vaxandi í takt við neyslukröfurnar. Þetta hlýtur að verða til þess að ört gengur á auðlindir náttúrunnar, svo sem kol, olíu, gas og málma. Lofttegunda sem valda gróðurhúsaáhrifum gætir hins vegar í auknum mæli, t.d. koltvísýrings, en dýr og jurtir eru svipt heimkynnum sínum með þeim afleiðingum að útrýming blasir við.
  Umhverfið verður fyrir auknu álagi, og það er ekki bara hinn tæknivæddi heimur sem veldur því, knúinn af sífelldri þörf fyrir efnahagsframfarir, ríkmannlegan lífsstíl og þróttmikinn fjármálamarkað (japanskur iðnaður er til dæmis að eyða öllum skógum í Sarawak og Sabah), heldur eiga þróunarlöndin líka sinn þátt í því sem er að gerast. Ein arfleifð nýlendustefnunnar hefur verið tilurð og mótun samfélaga sem nú þurfa ekki bara að aðlagast heimi þar sem nýlendustefnan er úr sögunni, heldur fylgja þau sama mynstri efnahagsþróunar og iðnríkin. Því þurfa mörg þessara ríkja að finna leiðir til að treysta efnahag sinn. Iðnþróun táknar aukna brennslu eldsneytis úr jarðefnum sem eykur koltvísýring í andrúmsloftinu. Og þróunarlöndin þurfa ekki einungis að fæða vaxandi fólksfjölda; þau þurfa líka að greiða upp firnaháar skuldir við alþjóðastofnanir, sem er að hluta til skýring á eyðingu skóga (eins og t.d. Amazon). Vöxtur þéttbýlis í þróunarlöndunum veldur líka auknum umhverfisvandamálum. Þótt meirihluti fólks í iðnríkjunum búi í þéttbýli, er fólksfjölgun mest í Afríku og á fyrstu áratugum 21. aldar verður helmingur íbúa jarðarinnar trúlega í Suður og Suðaustur Asíu. Flestir íbúar þessara svæða munu búa í borgum sem geta ekki framleitt það sem þarf sér til viðurværis. Því verða auðlindir úr sveitum, höfum og frá svæðum á borð við heimskautalöndin lífsnauðsynlegar í þessum heimi vaxandi stórborgasamfélaga.
  Framtíð heimskautasvæðanna kann að tengjast öðrum félagslegum, pólitískum og efnahagslegum hagsmunum sem eiga uppruna sinn annars staðar. Í Tími heimskautasvæðanna (The Age of the Arctic) benda Osherenko ogYoung (1989) á mikilvægi þess að sjá þróun heimskautalandanna sem tengsl milli þjóða fremur en frá hinum hefðbundna sjónarhóli sambandsins milli miðsvæðis og útkjálka, sem er afsprengi nýlenduhugsunarinnar. Þeir segja:
  Erlendir fjárfestar geta lofað fé og hátækni til þróunar í heimskautalöndunum og útvegað markaði þar sem ekki er um staðbundna eftirspurn að ræða. Með örfáum undantekningum hefur þetta ekki leitt til fyrirkomulags með nýlendusniði eða nýrra nýlendutengsla. En beinar fjárfestingar erlendra fyrirtækja eða stjórnvalda vaxa enn mjög hratt og eru að byggja upp flókið net fjölþjóðlegra sambanda á heimskautasvæðunum
  Fiskveiðar eru gott dæmi um hvernig fjölþjóðleg starfsemi hefur áhrif á lífskjör heimamanna og kemur oft í veg fyrir sjálfbæra þróun. Samfélög sem byggja á auðlindum sjávar á heimskautasvæðunum eru, eins og alls staðar annars staðar í heiminum, háðar áhrifum heimsviðskipta og þessa gætir æ meir á öllum sviðum, jafnt félagslegum, fjárhagslegum sem menningarlegum. Það er mikilvægt að skoða ýmis vandamál strandbyggða í tengslum við endurskipulagningu fiskveiða á heimsvísu, jafnvægi milli einstakra tegunda og fiskislóða, alþjóðavæðingu í útvegun birgða til handa vinnslustöðvum og smásölumörkuðum, og flutning fjármagns frá hefðbundnum aðilum, eins og fiskimönnum og vinnslustöðvum í heimabyggð til öflugra fjölþjóðafyrirtækja. Ein af mikilvægustu afleiðingum heimsvæðingarinnar sést gleggst í kerfum til auðlindastjórnunar og tilfærslu fiskjarins úr auðlind til almennra nota yfir í einkaeign. Með þessum hætti breytist eðli fiskveiðanna frá því að vera atvinnugrein eða lífsstíll sem háður er stjórnun og reglum yfirvalda í heimabyggð, héraði eða á landsvísu yfir í alþjóðlegan rekstur sem stýrt er af nokkrum fjölþjóðafyrirtækjum.
  Lítill skilningur er á sambandinu milli alþjóðaviðskipta, umhverfis og sjálfbærrar þróunar og það er háð markaðsskilyrðum úti í heimi að hve miklu leyti unnt er að tryggja sjálfbæra nýtingu auðlinda úr lífríki sjávarins. Eins og sakir standa eru styrkir til sjávarútvegs ein aðalhindrunin á leiðinni til sjálfbærra fiskveiða. Styrkjakerfið kemur í veg fyrir eðlileg viðskipti og leiðir til of mikillar sóknargetu - sem svo aftur veldur ofveiðum og hnignun fiskistofna. Leiðin til sjálfbærrar þróunar er háð því að þjóðir dragi smám saman úr styrkjum til sjávarútvegs og athyglisvert er að Ísland hefur tekið forystu að þessu leyti.
  Tilraunir til að fá fiskimenn til að draga úr veiðum á minnkandi fiskistofnum og einbeita sér að sjálfbærri veiðitækni fara fram í alþjóðlegu samstarfi sem beinist að því að koma upp staðli til að sérmerkja vistvænar sjávarafurðir. Matvæla og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) á aðild að þessu starfi og stór fyrirtæki svo og almenn samtök hafa náð talsverðum árangri í því markmiði að tryggja rétta umgengni við náttúruna með því að koma upp kerfi vistvænna merkinga.Gott dæmi um þessa viðleitni er Eftirlitsnefnd úthafsveiða the Marine Stewardship Council (MSC) sem var stofnsett á vegum Unilever og Náttúruverndarsjóðsins (Worldwide Fund for Nature). Eftirlitsnefndin hefur sett sína eigin staðla um sjálfbærar fiskveiðar sem gilda um allan heim og er að vinna að því að skapa nýja hvatningu á markaðnum með því að verðlauna fyrir vistvæna fiskveiðistefnu. Það getur hins vegar ógnað afkomu strandbyggða og fyrirtækja heimamanna sem byggja á sjávarafurðum er alþjóðleg viðskipti og viðbrögð neytenda beina vaxandi athygli að stöðlum er tryggi öryggi sjófangs til manneldis. Þótt stefnt sé að því að hvetja til sjálfbærarra veiða, getur merking vistvænna afurða í reynd falið í sér afbökun eðlilegra viðskipta - hversu áhrifaríkt svona kerfi reynist kemur ekki í ljós fyrr en rannsóknir á efnahag strandbyggða og veiðiaðferðum hafa verið settar í samhengi við alþjóðavæðingu og viðskipti, svo og áhrif fjölþjóðafyrirtækja sem stunda fiskveiðar.
  Strandbyggðir sem eru háðar öflun afurða úr lífríki hafsins eiga mikið á hættu vegna samverkunar afla sem láta til sín taka um allan heim, vegna alþjóðaviðskipta, endurskipulagningar fiskiðnaðarins, víðfeðmari sjónarmiða í fiskveiðistefnu og vegna aðgerða umhverfissinna. En erfiðleikar steðja einnig að innan frá með breyttri samfélagsgerð, minnkandi vægi ættartengsla og fjölskyldu í félagsmynstri fiskveiðanna. Heimamenn bregðast líka öðruvísi en áður við þjóðfélagsbreytingum, og klofningur hefur komið upp milli samtaka fiskimanna á heimaslóðum og landssamtaka þeirra og jafnvel hafa komið í ljós brestir innan samtakanna sjálfra
  Sú hefð hefur einkennt strandbyggðir á Grænlandi, Íslandi og í Norður Noregi að fiskveiðar heimamanna hafa verið í smáum stíl og byggðar á fjölskyldueiningum. Byggðarlögin hafa þróað sína eigin sérstöku samfélagsgerð sem treystir á sterk ættarbönd, og það voru fyrst og fremst fjölskyldur og ættingar sem lögðu til áhafnir á fiskibátana. En nú er öldin önnur. Í smábyggðum margra strandhéraða eru atvinnutengsl farin að skipta jafn miklu máli og ættarböndin og koma jafnvel í stað þeirra. Það er því svo komið í mörgum fiskimannasamfélögum við Norður Atlantshaf að mannaráðningar byggjast æ meir á atvinnutengslum úr ýmsum áttum og formlegum ráðningarsamningum í stað búsetu og ættarbanda eins og áður var.
  Á Grænlandi sem verður sífellt tæknivæddara og nútímalegra eru veiðar farnar að taka meira mið af viðskiptahagsmunum og útgerð er stunduð með mun flóknari tækni en áður. Fiskimenn fjárfesta í stærri og tæknilega fullkomnari veiðiskipum til að stunda veiðar á fjarlægum miðum undan ströndum landsins. Þótt stundum eigi ættingjar, t.d. bræður, bátana saman, eru áhafnarmeðlimir ekki alltaf skyldir, heldur hæfir sjómenn sem ekki tengjast ættarböndum og þiggja laun fyrir vinnu sína í stað hlutdeildar í aflanum.
  Enn fremur er sjálfbærri nýtingu auðlinda sjávarins og afkomu íbúa strandbyggða ógnað þegar fiskur, selir og hvalir breyta um hlutverk og eru ekki lengur aulindir sem allir eiga aðgang að, heldur breytast í verslunarvöru í einkaeign þar sem nýtingu er stýrt með boðum og bönnum. Á Íslandi hefur gilt meginreglan um sameiginlegan rétt til nýtingar síðan landið var byggt, en á Grænlandi hefur verið litið svo á að enginn eigi dýr og fiska. Í báðum tilvikum er litið svo á, eins og venja er í samfélögum fiskimanna við Norður Atlantshaf, að fiskur eða sjávarspendýr verði ekki verslunarvara fyrr en að veiði aflokinni og þá fyrst er um einkaeign að ræða. En jafnvel í slíku tilviki eru í gildi staðbundnar reglur, trú og hefðir sem takmarka réttinn til einkaeignar. Á Grænlandi er sameign og endurgjaldslaus dreifing á kjöti sela og annarra sjávarspendýra viðurkenning á skuldinni sem mannfólkið á dýrinu að gjalda fyrir að koma til veiðimannsins og ekki er litið svo á að neinn einstaklingur eigi óskertan eignarrétt á veiðidýrum. Í þessu samhengi hefur þróun markaða fyrir grænlenskar fisk- og kjötafurðir, sem skapað hefur tekjur fyrir veiðimenn og fiskimenn á viðkomandi stöðum, engu að síður vakið upp umræður í samfélaginu varðandi viðeigandi nýtingu á sjávarlífverum. Fyrir mörgu fólki fela sel- og hvalveiðar í sér tengsl sem eiga sér hugmyndafræðilegar, náttúrulegar og menningarlegar rætur og sameign og dreifing á kjöti er bæði tjáning og varðveisla félagslegra tengsla. Enda þótt miklu af kjöti sjávarspendýra sé enn útdeilt til fjölskyldu og ættingja veiðimannsins á mörgum svæðum á Grænlandi, eru sjómenn og veiðimenn engu að síður farnir að selja hluta af aflanum sem áður var ætlaður til eigin neyslu til vinnslustöðvanna sem nú eru í flestum þorpum, af ástæðum sem áður eru til greindar. Þegar veiðar eru stundaðar til að fullnægja þörfum markaða utan samfélaganna í viðkomandi byggðarlögum, vaknar sú tilfinning að venjubundin hugmyndafræði sjálfsþurftarveiðanna, þar sem lögð var áhersla á ættarbönd, samfélagið, sameign og gagnkvæma góðvild hafi nú verið rofin með þeim hætti að ekki verði aftur snúið.
  Breytt eðli þeirra menningarlegu og pólitísku viðhorfa sem mestu ráða um nýtingu heimskautasvæðanna, áhrif þróunar á heimsvísu og álag á auðlindir, ásamt með árekstrum í pólitísku, menningarlegu og fagurfræðilegu gildismati varðandi framtíð þessara landssvæða hefur leitt til þess að nauðsynlegt er að endurmeta kennisetningar um heimskautalöndin út frá landfræðilegum og pólitískum forsendum. Nýleg viðhorf í stjórnmálalandafræði varðandi breytingar norðursvæðanna vegna þess álags sem þau hafa orðið fyrir í stjórnmálalegu, landfræðilegu, efnahagslegu og menningarlegu tilliti hafa þokað okkur nokkuð áleiðis í þessum málum. Þegar við höldum innreið okkar í 21. öldina, verða rannsóknir, bæði á sviði náttúru- og félagsvísinda æ mikilvægari vegna þess að þær stuðla að bættum skilningi okkar á málefnum jarðarkringlunnar. En ekki er minna um vert að hafa í huga þróun heimsmálanna og áhrif þeirra, ef við eigum að geta öðlast skilning á heimskautalöndum samtímans og hlutverki þeirra í alþjóðasamfélaginu.
Fyrri kafliFyrri kafli Næsti kafliNæsti kafli
The Arctic is changing by Mark Nuttall. http://www.thearctic.is
Copyright Stefansson Arctic Institute and individual authors ©2000
Developed in partnership with the EU Raphael Programme