|
Skref í
átt til sjálfbærrar þróunar |
|
Norðurskautsráðið
(www.arctic-council.org)
var stofnað 1996. Hlutverk ráðsins var að efla
umfjöllun um samstarf varðandi málefni heimskautasvæðanna,
með þeim hætti að hún takmarkaðist
ekki við umhverfismál, heldur yrði sérstök
áhersla lögð á sjálfbæra þróun.
Ráðinu er ætlað að vera umræðuvettvangur
á æðra stjórnunarstigi fyrir norðurskautslöndin
(Kanada, Bandaríkin, Ísland. Rússneska ríkjasambandið,
Danmörk, Svíþjóð, Finnland og Noregur)
fjalla um verndun umhverfisins (sér í lagi á
þeim svæðum þar sem um mengun er að ræða),
sjálfbæra efnahagsþróun, sjálfsþurftaratvinnugreinar,
heilsufar, félagslega þróun, ferðaþjónustu,
svo og flutninga og samgöngur. Einnig var tryggt að samtök
frumbyggja ættu aðild að fundum ráðsins.
|
|
Markmið vinnuhópa á
vegum Norðurskautsráðsins er að vernda vistkerfi
heimskautasvæðanna (og í þessu samhengi er
litið á menn sem hluta vistkerfisins); að tryggja
að íbúar á viðkomandi svæða
og frumbyggjar geti nýtt endurnýjanlegar auðlindir
á sjálfbæran hátt; að viðurkenna
og virða hefðbundnar og menningarlegar hefðir, gildismat
og siði frumbyggja í tengslum við náttúrufar
heimskautalandanna; að fylgjast reglulega með ástandi
heimskautasvæðanna, að finna ástæður
og útbreiðslu mengunar á heimskautasvæðunum;
og draga úr mengun eða koma í veg fyrir hana.
Þessum markmiðum skal náð með fimm mismunandi
áætlunum sem beinast að umhverfisvandamálum,
eins og t.d. olíumengun, losun geislavirkra úrgangsefna,
umhverfismengun vegna þungmálma, hækkuðu
sýrustigi og heimskautamóðu. Settar hafa verið
á stofn eftirfarandi áætlanir: Könnun og
mat á umhverfi heimskautasvæðanna; Verndun hafsvæða
við heimskautin; Varnir gegn neyðarástandi, viðbúnaður
og viðbrögð; Verndun plöntu- og dýralífs
heimskautasvæðanna og Vinnuhópur um sjálfbæra
þróun. |
|
Norðurskautsráðið
kom í stað Átaks um verndun heimskautasvæðanna
(AEPS) sem sett var á laggirnar í Rovaniemi í
Finnlandi í júní 1991, er umhverfisráðherrar
frá heimskautalöndunum átta undirrituðu yfirlýsingu
um verndun heimskautasvæða. Þessi yfirlýsing,
sem einnig er nefnd Rovaniemi samþykktin, var vettvangur þar
sem löndin átta gátu skipst á upplýsingum
og þróað áætlanir og sérstakar
ráðstafanir til að bregðast við umhverfisvandamálum
á borð við mengun heimskautasvæðanna. |
|
Samtök Inúíta á
svæðunum umhverfis norðurpólinn The Inuit Circumpolar
Conference (ICC) var sett á stofn 1977 sem svar við vaxandi
leit að olíu og jarðgasi og þróun þar
að lútandi. Aðild að samtökunum eiga Inúítar
frá Grænlandi, Kanada, Alaska og Síberíu.
Frá 1983 hafa samtökin notið viðurkenningar
Sameinuðu þjóðanna, sem frjáls félagasamtök
og þau telja sig hafa forystu um almenn réttindi frumbyggja,
sér í lagi hvað varðar rétt til sjálfsákvörðunar.
Samtökin hafa gagnrýnt stjórn Átaks um
verndun heimskautasvæðanna (Arctic Environmental Protection
Strategy; AEPS) fyrir að einbeita sér í upphafi
um of að verndunarsjónarmiðum einum saman. Þau
lögðu áherslu á þörfina fyrir
að takmarka sig ekki við umhverfi heimskautalandanna, heldur
hefja einnig umræðu um hvernig því verði
best við komið að skapa og varðveita efnahagslegan
grundvöll samfélaga á þessum norðlægu
slóðum, sem ekki sýndi einkenni þeirra öfgakenndu
sveiflna svo gjarna eru fylgifiskar stórstígrar efnahagsþróunar.
Vissulega er verndun tiltekinna tegunda, svo sem hvala og hvítabjarna,
mikilvæg fyrir innfædda, en vísindaleg stjórnun
auðlinda hefur engu að síður tilhneigingu til
að horfa framhjá viðhorfum og gildismati frumbyggjanna.
Ákvarðanir um athvarf villtra dýra og afmörkun
þjóðgarða takmarka oft réttindi fólks
til að veiða dýr og fisk á viðkomandi
svæðum og alþjóðlegar reglur hafa haft
áhrif á hvalveiðar sem stundaðar eru til lífsviðurværis.
Það er viðhorf samtaka Inúíta að
verndun umhverfisins sé skilyrði fyrir sjálfbærri
þróun auðlinda á norðurslóðum.
|
|
Samtök Inúíta hafa
sett sjálfbæra þróun í öndvegi
vegna þess að lítil, afskekkt samfélög
frumbyggja á svæðunum umhverfis norðurpólinn
einkennast umfram allt af áhættusömum blönduðum
efnahag sem felur í sér tvo meginþætti;
annars vegar hefðbundin bjargráð, en af þeim
hafa margar fjölskyldur sitt helsta viðurværi og
hins vegar launaða vinnu þar sem gilda reglur formfastra
peningaviðskipta. Hefðbundna þáttinn er ekki
alltaf auðvelt að skilgreina eða mæla, en í
honum felst flókið samspil dýra- og fiskveiða
sem byggist á ævafornum, árstíðabundnum
siðum og venjum. Ekki er safnað fjármagni, villibráð
er skipt milli allra, þekkingin flyst frá einni kynslóð
til annarrar og í viðskiptum ráða ekki peningasjónarmið,
heldur ættarbönd og önnur náin félagsleg
tengsl. Öflun felst ekki bara í að verða sér
úti um næga fæðu til að geta lifað
af. Dýra- og fiskveiðar skapa sérstæða
siði og venjur sem fela í sér ákveðin
samskipti milli manna og dýra; í þessu flest
kjarninn í menningu og lifnaðarháttum frumbyggja.
Þrátt fyrir menningarlegt og efnahagslegt mikilvægi
veiða sem stundaðar eru til lífsviðurværis,
fer þeim æ fækkandi samfélögunum á
norðurslóðum sem eru að hluta til eða alfarið
háð veiðiskap á láðs- eða lagardýrum.
Því er einnig svo farið að jafnvel þótt
flestir vildu veiða eða fiska sér til viðurværis,
henta slíkir lifnaðarhættir ekki alls staðar
í heimskautalöndunum þegar til lengri tíma
er litið. Því stunda margir frumbyggjar annars
konar iðju sér til framfærslu, svo sem fiskveiðar
á viðskiptalegum grunni, olíuvinnslu eða námugröft. |
|
Samt tengist hefðbundinn og nútímalegur
efnahagur margvíslegum böndum og mörkin þar
á milli eru óljós og verða trauðla
skilgreind. Þótt iðja til eigin viðurværis
sé venjulega aðgreind frá viðskiptalegri starfsemi
með þeim hætti að framleiðslueiningin (í
þessu tilviki fjölskyldan) er einnig neyslueining, er
sjálfsþurftarlífstíll heimskautalandanna
engu að síður háður markaðsöflum
og peningahyggju. Þessi hefur verið raunin síðan
frumbyggjar komust í kynni við verslun með loðskinn.
Og eins og rannsóknir á fiskveiðum í ábataskyni
í afskekktum þorpum í Alaska hafa gefið
til kynna, þá er það svo að þótt
menn veiði fisk fremur til að selja aflann en til að
neyta hans, tengjast störf þeirra engu að síður
framleiðslu til eigin viðurværis. Þetta á
við um staðarval og tengsl við árstíðir,
svo og menningarlega og félagslega þætti svo
sem fjölbreytta nýtingu auðlindarinnar og sameiginlega
hagsmuni fjölskyldna. Svipað er ástatt á
Labrador, þar sem hreindýraveiðar í hagnaðarskyni
eiga flest sameiginlegt með sjálfsþurftarveiðiskapnum,
að því undanskildu að veiðimennirnir eru
starfsmenn fyrirtækis og flytja hreindýrin í
vinnslustöð. Það virðist ekki mikill munur
á veiðimanninum sem færir hreindýrakjötið
heim sem björg í bú og hinum sem selur afurðirnar
til vinnslustöðvar til að geta fætt og klætt
fjölskyldu sína. |
|
Enda þótt sumar afurðir
veiðiskapar, hjarðmennsku og fiskveiða í smáum
stíl, eins og dæmið frá Labrador sýnir,
séu ef til vil notaðar til að fæða fjölskyldur
veiðimanna, hreindýrahirða og fiskimanna er líka
verslað með hluta afrakstursins í formi vöruskipta
eða peningaviðskipta. Þó að slík
verslun sé að miklu leyti staðbundin, eða takmarkist
við nærliggjandi svæði, fer samt töluvert
af kjöti, fiski, skinnum og loðfeldum á fjarlæga
markaði, og þannig verða hefðbundin störf
að veiðiskap og hjarðmennsku háð og nátengd
efnahagsskipan heimsbyggðarinnar. Veiðimennirnir verða
líka háðir nútíma tækni til
að afla sér og fjölskyldum sínum viðurværis.
Þeir þurfa að nota utanborðsmótora, snjósleða,
bensín, riffla og net. Allt þetta þarf að
kaupa svo þörf er á reglubundnum tekjum til að
halda sjálfsþurftarbúskapnum gangandi. Áður
en aðgerðir samtaka gegn selveiðum og dýraveiðum
með gildrum þurrkuðu nánast út markaðinn
fyrir fyrir selskinn og feldi af loðdýrum, eins og t.d.
bjórum og bísamrottum, voru þessar afurðir
helsta tekjulind veiðimanna og fjölskyldna þeirra.
Á norðanverðu Grænlandi, til dæmis, varð
verðfall selskinna og jafnvel eyðilegging skinnamarkaða
vegna aðgerða dýraverndunarsinna á níunda
áratugnum til þess að íbúar byggða
þar sem veiðiskapur var aðalatvinna urðu að
leita sér annarra tekna til að geta stundað veiðar
sér til viðurværis. Í þessum tilgangi
þróuðust veiðar á grálúðu
í smáum stíl. En sá er hængur
á að ofveiði hefur þegar gengið mjög
nærri grálúðustofninum sem ekki fær
staðið undir hvoru tveggja, stórfelldum veiðum
í viðskiptaskyni sem stundaðar eru af skipum frá
öðrum byggðum Grænlands ásamt með
veiðiskap frá byggðarlögum í grennd við
fiskimiðin. |
|
Almennt séð eru því
aðstæður með þeim hætti á svæðunum
umhverfis norðurpólinn að fjölskyldur sem stunda
veiðar sé til viðurværis, stunda líka
önnur störf til tekjuöflunar, t.d. launaða vinnu
í fullu starfi eða að hluta til, árstíðabundin
störf, handiðn, fiskveiðar í ábataskyni
eða aðra iðju til stuðnings eða viðbótar
við sjálfsþurftarveiðarnar. Það er
svo kaldhæðni örlaganna að þótt
full störf í launaðri vinnu skerði þann
tíma sem nýta má til veiðiskapar, er launavinnan
svo ótrygg, skammvinn eða árstíðabundin
að fáar fjölskyldur geta treyst á hana einvörðungu
sér til framfærslu. Því verða menn
að draga björg í bú með veiðiskap
til að bæta sér upp stopula launavinnu, eða
til að framfleyta sér meðan leitað er fyrir sér
á vinnumarkaðnum. |
|
Sumir athugendur hafa litið svo
á að hefbundin störf geti átt ríkan
þátt í að stuðla að fjölbreyttu
atvinnulífi meðal frumbyggja. Þeir hafa lagt áherslu
á mikilvægi þessarar iðju í þróun
smærri samfélaga með þeim rökum að
þau störf sem áður voru stunduð til eigin
viðurværis leggi traustan grunn að sjálfstæði
einstaklinganna með þeim hætti að atvinnulífið
á staðnum tryggi þeim reglubundnar, raunhæfar
tekjur. |
|
Þannig hafa sumir litið
svo á að aukin áhersla á hefðbundin
störf, svo sem nýtingu spendýra til lands og
sjávar í viðskiptaskyni geti komið í
stað þess að þróa vinnslu auðlinda
sem ekki eru endurnýtanlegar. Heimastjórnin á
Grænlandi lítur t.d. svo á að framleiðsla,
dreifing og viðskipti með matvæli og aðrar afurðir
veiðiskapar til lands og sjávar sé lykillinn að
varanlegu efnahagslegu sjálfstæði smábyggða.
Stuðningur heimastjórnarinnar við þróun
af þessu tagi myndi draga úr þörf fyrir
innflutning matvæla, styðja veiðimennsku á
svæðunum og koma í stað fjárhagslegs
stuðnings stjórnvalda við smábyggðir.
Og viðskipti innfæddra myndu ekki takmarkast við heimaslóðir,
heldur eru menni einnig að leita fanga á alþjóðlegum
mörkuðum. T.d. fljúga kaupendur frá Kóreu
reglulega til Seward skagans í Alaska og borga a.m.k. fimmtíu
dollara fyrir pundið af hreindýrshornum (sem notuð
eru til framleiðslu frygðarlyfja). Á Labrador veiða
Inúítar árlega um eitt þúsund
hreindýr í ábataskyni og byggðarlag á
Baffin eyju selur Japönum skinn af hringanórum og vöðuselum.
|
|
En vegna tengsla milli hefðbundinna
starfa og formlegrar launavinnu blasir sá vandi við fjöskyldunum
að tryggja sér jafnar tekjur. Lítið er um
tækifæri til launaðra hlutastarfa í smáum
byggðum, og heil störf enn sjaldgæfari. Skinnaverslun,
gullgröftur, olíu- og gasvinnsla ásamt námugreftri
eru helstu atvinnugreinar sem fært hafa frumbyggjunum tækifæri
til tekjuöflunar og haft áhrif á lífsvenjur
þeirra. En markaðir hrynja, verð lækkar og störf
leggjast af. Á síðustu árum hefur vöxtur
ferðaþjónustu víðs vegar á norðurslóðum
veitt frumbyggjum tækifæri til að færa sér
í nyt löngun ferðalanga til að kynnst ósnortinni
náttúru og menningu innfæddra. En komur ferðamanna
eru árstíðabundnar og því er ósennilegt
að þessi atvinnugrein geti orðið grunnur að
þróun byggðarlaga. |
|
Samfélög og samtök
heimamanna eru ekki mótfallin þróun í
tengslum við auðlindir sem ekki eru endurnýtanlegar.
Frumbyggjarnir vilja svo sannarlega taka þátt í
þróunarverkefnum og njóta arðs af þeim,
bæði til að tryggja fjárhagslega afkomu og
viðhalda menningu sinni. Hér áður fyrr var
það sjaldgæft að iðnþróun í
stórum stíl skeytti um nánasta umhverfi og
varðveislu auðlinda sem íbúar á viðkomandi
svæðum gátu nýtt sér. Ekki var heldur
gefinn gaumur að þeim félagslegu og fjárhagslegu
vandamálum sem slík þróun oft hefur í
för með sér. Því aðeins gefst færi
á að leysa efnahagsleg vandamál heimamanna að
þeir hafi ráðstöfunarrétt yfir nýtingu
og þróun auðlinda, að viðurkennd sé
fjölbreytt gerð samfélaga þeirra og þekking
þeirra og færni sé færð í nyt
og njóti stuðnings og uppörvunar. Ennfremur hefur
verið bent á að nauðsynlegt sé að
taka mið af þekkingu heimamanna á aðstæðum
við mat á umhverfisáhrifum þróunarverkefna. |
|
Að nokkru leyti hafa samningar
um yfirráð yfir landi gert samfélögum frumbyggja
kleift að taka verulegum framförum og sumt af því
sem mestu skiptir í þeim efnum hefur verið afrakstur
átaks sem unnið hefur verið innan samvinnufélaga
heimamanna og fyrirtækja í eigu þeirra. Fyrirtækin
hafa svo annað hvort gengið til áhættusamstarfs
við olíu- gas- og námafélög eða
tekið frumkvæði að eigin verkefnum. |
|
Til dæmis hafa samtök innfæddra
í Norðvestur Alaska the Northwest Alaska Native Association
(NANA), sem mynda héraðsstjórn á svæðinu
stutt og eflt Cominco's Red Dog blý og sinknámuna
og fyrirtækið Arctic Slope Regional Corporation (ASRC)
sem er stærsta fyrirtæki í eigu Alaskabúa
og hefur skilað miklum árangri vegna tengsla sinna við
héraðsstjórnina North Slope Borough ( sem er auðugasta
svæðisstjórnin í Alaska, að sumu leyti
vegna skattlagningar á olíuvinnslusvæðum)
hefur fjárfest verulega í fyrirtækjum annars
staðar í Bandaríkjunum. |
|
Ráðherrar sem eiga sæti
í Norðurskautsráðinu eru einnig þeirrar
skoðunar að verndun umhverfisins og sjálfbær
þróun séu ekki sjónarmið sem útiloka
hvort annað. Tímabundinn vinnuhópur um sjálfbæra
þróun sem upphaflega nefndist Task Force on Sustainable
Development (TFSD) og var stofnsettur eftir ráðherrafund
Átaks um verndun heimskautasvæðanna (Arctic Environmental
Protection Strategy; AEPS) í Nuuk, sem var fyrst og fremst
ætlaður sem svar við þrýstingi frá
Samtökum Inúíta á svæðunum umhverfis
norðurpólinn (ICC) um að útvíkka starfssvið
AEPS. Þessi tímabundni vinnuhópur um sjálfbæra
þróun (TFSD) var síðan gerður að
föstum starfshóp Átaks um verndun heimskautasvæðanna
(AEPS) á ráðherrafundinum í Inuvik. Stofnun
starfshópsins gaf til kynna að framtíðarstefna
AEPS myndi fremur beinast að fjölbreyttari málefnum
í tengslum við sjálfbæra þróun
í stað þess að takmarkast við mengun um
umhverfisspjöll. Upphafleg áhersla á endurnýjanlegar
auðlindir og ferðaþjónustu gefur til kynna
að starfshópurinn hafi gert sjónarmiðum samtaka
heimamanna hátt undir höfði, og sér í
lagi hafi verið tekið tillit til framlags samtaka Inúíta
á svæðunum umhverfis norðurpólinn (ICC)
varðandi aðild innfæddra og hvernig tengja mætti
þekkingu heimamanna AEPS þróunarverkefninu. |
|
Sjálfbær þróun
er einnig forgangsmál heimskautaráðsins sem fylgir
nákvæmlega skilgreiningu Brundtland nefndarinnar frá
1987 en samkvæmt henni er hér um að ræða
þróun sem mætir þörfum samtímans
án þess að stofna í hættu möguleikum
komandi kynslóða til að uppfylla sínar þarfir.
Kanada, sem veitir ráðinu forystu, skilgreindi sjálfbæra
þróun sem "þróun er stefnir að
mannlegri farsæld með réttlátri og lýðræðislegri
nýtingu auðlinda samfélagsins og varðveitir
um leið menningarleg sérkenni og náttúrulegt
umhverfi handa komandi kynslóðum." Nú blasir
við heimskautaráðinu það ögrandi verkefni
að halda áfram því verndarstarfi sem hafið
var á vegum AEPS, en jafnframt gera menn sér ljóst
að efla verður tengsl þessa starfs við sjálfbæra
þróun. Í því sambandi hefur Oran
Young lagt á það áherslu að sjálfbær
þróun ætti að mynda heildarramma um starfsemi
Norðurskautsráðsins er það hefst handa
við að skipuleggja ný þróunarverkefni
á sviði alþjóðasamstarfs um málefni
heimskautasvæðanna. Meðal annars hefur Young lagt
til að valmöguleikar um lífsviðurværi,
sameiginleg stjórnun og þróun vistvænnar
tækni og aðferða ættu að vera meðal
leiðandi þátta í starfi ráðsins
varðandi sjálfbæra þróun. (sjá
einnig www.svs.is/oran.htm). |
|
Í viðleitni til að
sætta margvísleg og andstæð sjónarmið
frumbyggja, umhverfissinna, vísindamanna og ráðamanna
halda Kanadamenn því fram að "umboðsvald
ráðsins, ásamt með fulltrúaskipan þess
og starfsháttum…..geti leyst úr vandamálum
allra aðila í samræmi við meginregluna um sjálfbæra
mannlega þróun sem tekur fullt tillit til umhverfisins
(Graham ibid.: 51, skáletur í upprunalegri heimild).
Haft er eftir Mary Simon, fyrrum sendiherra á sviði Málefna
á svæðunum umhverfis norðurpólinn, að
Norðurskautsráðið megi ekki gera þá
skyssu að líta á verndun umhverfisins og sjálfbæra
þróun sem aðskilin málefni, eins og AEPS
hafði gert, heldur verði öflug umhverfismarkmið
að felast í hugmyndum að sjálfbærri
þróun. Enda þótt sjónarmið
heimskautaráðsins varðandi sjálfbæra
þróun taki viðeigandi mið af stöðu
ICC varðandi hugtakið "sjálfbær"
þ.e. þróun sem leiðir til vaxtar á
sviði samfélags, menningar, andlegra og efnislegra verðmæta,
kann samt svo að fara að deilur um viðeigandi þróunaráætlanir
komi til með að verða áberandi á fyrstu
fundum ráðsins. |
|