The ArcticMainpage
Smellið til að stækka
PDF-útgáfa
PDF-útgáfa
af þessari grein
Heimskautalöndin eru að breytast
eftir Mark Nuttall
KAFLAR:
Næsti kafliNæsti kafli
Umhverfi í hættu
  Það er ekki auðvelt að ferðast langar leiðir um heimskautasvæðin án þess að rekast á merki um iðnvædd efnahagskerfi um heimsins og áhrif þeirra, svo sem áratuga sóun undir merkjum sósíalisma eða hernaðarlegt mikilvægi þessara svæða á tímum kalda stríðsins.
  Risafyrirtæki á sviði olíuframleiðslu, eins og t.d. í Prudhoe Bay nyrst í Alaska tengjast stórborgum með æ þéttriðnara neti malarvega til að tryggja örugga aðflutninga. Olíu- og gasleiðslur, sumar lekar og ryðgaðar, liðast um mörg hundruð mílna leið yfir túndrur og fjallgarða, en ökuslóðir og flakandi sár eftir skógarhögg sem engu eirir þverskera landslag viðkvæmra norðurslóða.
  Jafnvel á afskekktum svæðum fjarri mannabyggð blasir við rusl og úrgangur iðnaðar og hernaðar, sem sífellt minnir á hversu viðkvæm og varnarlaus heimskautasvæðin eru, svo og hve maðurinn skaðar umhverfið með athöfnum sínum.
  Á norðaustur Grænlandi, til dæmis (á óbyggðu svæði innan verndaðs þjóðgarðs) liggja á víð og dreif plastpokar, fiskinet, gaddavír, eldsneytisgeymar og bjórflöskur; allt hefur þetta rekið hefur á fjörur þar sem lítið er um mannaferðir. Á Seward skaga í Alaska hafa heimamenn fundið tærðar rafhlöður úr flugvélum í ám sem tekið er úr drykkjarvatn fyrir sumarbúðir stangveiðimanna, farartæki sem ameríski herinn hefur skilið eftir, sem ónýt og hylki með sinnepsgasi hálfgrafin í túndruna.
  Og 1994, fimm árum eftir að Exxon Valdez strandaði með þeim afleiðingum að meira en 40 milljónir lítra af hráolíu frá vinnslusvæðunum í norðri flæddu inn í Prins William sundið, kom fram í samtölum við fiskimenn frá sunnanverðu Alaska að þeir voru enn að reyna að henda reiður á hve skelfilegar afleiðingar þetta olíuslys hafði á afkomu þeirra.
  Exxon Valdez slysið á Prins William sundi í Alaska 1989 sýndi glöggt hversu hættulegt er að flytja olíu sjóleiðis og nýleg dæmi um leka úr rússneskum olíuleiðslum hafa vakið upp spurningar um hversu traustar og öruggar þær séu.
  Talið er að um 5-10% af olíuframleiðslu í Rússlandi tapist vegna leka, brunngosa, sóunar og þjófnaðar. Minniháttar losun olíu úr fljótandi farkostum, svo sem olíuskipum, fragtskipum, fiskibátum og strandferðaskipum sem sigla á norðurslóðum veldur einnig mengun sem erfitt er að henda reiður á, en engu að síður kunna áhrif hennar á vistkerfi heimskautalandanna að vera umtalsverð.
  Ísbirnir, selir, sæotrar og sjófuglar eru nú þegar algeng fórnardýr olíumengunar, og hætta er á röskun hefðbundinna farleiða sléttbaksins í Chuckchi hafinu um svæði þar sem nú fer fram olíu- og gasvinnsla ef þróunin heldur óbreytt áfram.
  Vísindamenn hafa lýst því hvernig forvitni ísbjarna laðar þá að áður óþekktum hlutum og lykt, þ.á.m. borpöllum undan ströndinni og olíutunnum í þorpum heimskautasvæðanna og í verbúðum Inúíta sem stunda veiðar. Þeir geta einnig hlotið bana af því að fá olíu ofan í sig með því að sleikja feld sinn ataðan olíu eða éta mengaða seli eða fugla.
  Á heimskautasvæðum er olían lengur að brotna niður vegna þess að hitastig er lágt og uppgufun lítil og lítil dagsbirta mestan hluta árs dregur úr útfjólublárri geislun sem er rotnunarferlinu nauðsynleg. Áhrifa olíumengunar á túndruna gætir stundum til margra ára; sér í lagi eru skófir, meginfæða hreindýra, og aðrar plöntur viðkvæmar fyrir slíkum spilliefnum. Snjóþekja og ís á landi getur hamið olíuna að vetrarlagi, en í vorleysingum losnar hún úr læðingi (um svipað leyti og farfuglarnir koma). Sjávarís, hins vegar, dregur úr ölduhreyfingu, sem á hlýrri svæðum myndi hjálpa til við að draga úr olíumengun. Olíueldar mynda reykský sem safnast í lægri loftlög vegna hitahvarfa á heimskautasvæðunum. Reykský frá olíueldum koma ekki bara í veg fyrir að lífgandi ylur sólarinnar berist til jarðar, þau innihalda líka spilliefni sem bæði valda mönnum heilsutjóni og draga úr framleiðni náttúrunnar jafnt á landi sem í sjó.
  Og það er fleira sem ógnar náttúrufari og íbúum heimskautalandanna; kannske ekki með alveg eins augljósum hætti, en ógnin er engu að síður raunveruleg. Útfjólubláir geislar hafa áhrif á húð fólks, augu og ónæmiskerfi. Mengun í sjó og andrúmslofti veldur því að lífræn spilliefni berast inn í fæðukeðjuna á öllum stigum hennar. Þessi útbreiddu mengunarefni brotna hægar niður í svalara loftslagi og eru því alvarlegri ógn við íbúa og dýralíf á norðlægum slóðum. PCB efnin, til dæmis, (olíukennd tilbúin efni sem gufa upp af ruslahaugum og brennandi olíu) hafa fundist í brjóstmólk Inúítakvenna í Kanada. PCB veldur krabbameini og spillir tauga-og hormónaþróun barna. Hátt hlutfall þessara efna finnst einnig sums staðar í selum, rostungum og hvítabjörnum sem getur gert dýrin ófrjó. Einnig hefur hátt hlutfall kvikasilfurs fundist í lifur hringanóra og kampsela - en báðar þessar tegundir eru eru aðalfæða ísbjarna og eru jafnframt grundvöllur sjálfbærrar veiðihefðar margra samfélaga Inúíta. Á Grænlandi mælist sjötti hver íbúi með of mikið kvikasilfur í blóðinu og önnur eiturefni sem finnast meðal Inúíta eru t.d. skordýraeitrið toxafen og ýmis klórsambönd. Kjarnorkuúrgangur og mengun frá þungmálmum ógnar einnig vistkerfum túndru og sjávar. Kjarnorkusprengingar í tilraunaskyni hafa átt sér stað í grennd við Novaya Zemlya í rússneska íshafinu og geislun hefur mælst í Norður-Atlantshafi og Barentshafi. Samt er mesta mengun vegna geislunar við Noregsstrendur ekki frá Rússlandi komin, heldur á hún uppruna sinn í Bretlandi og Frakklandi.
  Sú hætta blasir við að hækkandi hiti á jörðinni vegna gróðurhúsaáhrifa komi til með að hafa veruleg áhrif á heimskautasvæðin og afkomu þeirra sem þau byggja. Vistkerfi heimskautalandanna eru afar viðkvæm fyrir loftslagsbreytingum, en þar er spáð hlýnun að vetrarlagi sem gæti numið þreföldu til sexföldu meðaltali á jörðinni allri. Þess er þegar farið að gæta að vetur séu hlýrri en verið hefur í heimskautalöndunum og á nærliggjandi svæðum. Því er spáð að meðalhiti jarðarinnar hækki um 2°-5°C á næstu 50 til 100 árum. Hins vegar er búist við mun meiri hlýnun á heimskautasvæðunum, eða allt að 10°C. Gróðurhúsaáhrifin myndu draga úr hafísmyndun, sífrerinn myndi þiðna æ fyrr á vorin og frjósa aftur seinna á haustin, sveiflur yrðu í fiskistofnum og hefðbundnar farleiðir landdýra eins og t.d. hreindýranna myndu raskast er skógar, túndra og strandsvæði aðlöguðust nýjum umhverfisaðstæðum. Loftslagsbreytingar myndu einnig að öllum líkindum raska lifnaðarháttum margra milljóna farfugla, þar sem þeir minna yrði um fæðu á viðkomustöðum þeirra, þar sem þeir hefðu vetursetu og á varpstöðvunum.
  Miklar breytingar yrðu á veiðum, bæði til sjós og lands, og lítil afskekkt samfélög, sem nú þegar eru í hættu vegna breytinga á efnahagsaðstæðum um heim allan, yrðu fyrir miklum skakkaföllum
  Loftslagsbreytingar á heimskautasvæðum hafa áhrif á heimsvísu, sem síðan endurspeglast í heimskautalöndunum. Sumir vísindamenn eru hins vegar varfærnir í þessum efnum og benda á að enda þótt upplýsingar um hitafar á jörðinni virðist gefa til kynna yfirborðshlýnun milli 0.3° og 0.6°C á síðustu öld, benda staðbundnar rannsóknir ekki til að þetta eigi við alls staðar á jörðinni. Fremur má segja að lofthiti heimskautasvæðanna sé breytilegur eftir árstíðum og staðháttum. Engu að síður hafa menn töluverðar áhyggjur af hlýnandi loftslagi til framtíðar sem myndi valda miklum breytingum á heimskautasvæðum. Íshettur pólanna myndu bráðna sem leiddi til hækkandi yfirborðs sjávar með alvarlegum afleiðingum fyrir bæi og borgir við strandlengjuna og láglend svæði á borð við Bangladesh og Holland.
  Bráðnun sífrerans við heimskautin myndi leysa úr læðingi ógrynni af metangasi sem svo aftur yrði til að auka á gróðurhúsaáhrifin. Einnig gæti hlýnandi loftslag valdið meira skýjaþykkni og vaxandi úrkomu vegna meiri vatnsgufu (annar þáttur sem leiðir til hærra hitastigs) í andrúmsloftinu. Fundist hefur gat í ósonlaginu yfir norðurheimskautinu (og einnig yfir suðurheimskautinu). Ef ósonlagið þynnist eða gatið stækkar álíta vísindamenn að það geti haft ýmsar afleiðingar, ekki bara fyrir heimskautasvæðin, heldur fyrir alla jörðina. Þar sem óson, sem er lofttegund í 20-50 km hæð yfir yfirborði jarðar, stuðlar að því að sía burt sterka útfjólubláa geislun sólar, táknar minna óson að meiri útfjólublá geislun nær alla leið til jarðar. Hugsanlega gæti þetta valdið stökkbreytingum í gróðri og aukinni hættu á húðkrabbameini í mönnum og dýrum. Rýrnun ósonlagsins getur einnig stuðlað að hækkandi hitastigi á yfirborði jarðar. Ein meginorsök rýrnunar ósonlagsins eru efnasambönd úr klór, fluor og kolefni (chlorofluorocarbons; CFCs) er sleppa út í andrúmsloftið. Þetta eru tilbúin efni sem notuð eru í kæliskápa og úðabrúsa. Þau eyðast treglega, en stuðla hins vegar að eyðingu ósonlagsins. Á síðustu árum hafa komið fram nokkur atriði sem valda áhyggjum og gefa sterklega til kynna að umhverfisvandamál heimskautasvæðanna takmarkist ekki við þau, heldur eigi erindi við alla heimsbyggðina. Hér má t.d. nefna mengun í skófum og hreindýrum (sem éta skófirnar) í norðanverðri Skandinavíu vegna Chernobyl slyssins, PCB efni sem fundust í brjóstamjólk Inúít kvenna í Kanada (brjóstamjólkin innhélt fjórum sinnum meira af þessum efnum en meðal kvenna sem bjuggu í sunnanverðu Kanada), og heimskautamóðuna sem gefur glöggt til kynna hve langar leiðir mengun í andrúmslofti getur borist. Heimskautamóðan er ljósefnafræðilegt mengunarský sem gerir helst vart við sig að vetrarlagi. Í móðunni eru spilliefni frá iðnaði, sem verða til við brennslu kola og olíu og stálframleiðslu. Efnin berast frá Evrasíu í átt til svæðanna umhverfis norðurpólinn og þar halda þau velli í stöðugleika kalda loftsins. Mest er um brennisteinsagnir í móðunni, sem ógna ekki bara ósoninu í lægri loftlögum, heldur trufla þær líka orkuflæði andrúmsloftsins og stuðla að súru regni. Önnur mengunarefni eru t.d. kopar, blý, sink og arsenik. Þessi efni hafa fundist í skófum og mosa í Alaska, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi og þeirra gætir einnig á sumum bestu fiskislóðum heimskautasvæðanna.
Næsti kafliNæsti kafli
The Arctic is changing by Mark Nuttall. http://www.thearctic.is
Copyright Stefansson Arctic Institute and individual authors ©2000
Developed in partnership with the EU Raphael Programme