The ArcticMainpage
Smellið til að sjá stærra
Hreyfing dýraverndunarsinna gegn sel- og hvalveiðum
eftir Piers Vitebsky
  Á áttunda og níunda áratugnum hófu ýmis náttúruverndarsamtök í iðnríkjum Vestur Evrópu og Norður Ameríku herferðir gegn selveiðum og hvalveiðum. Sum þessara samtaka, t.d. Greenpeace viðurkenna að frumbyggjar eigi rétt til að nýta dýrastofna og varðveita menningu sína. En þeir krefjast þess oft að dýrin verði aðeins veidd með "hefðbundnum" hætti, en ekki með aðstoð stórra riffla og vélbáta. Aðrir, eins og t.d. Animal Liberation Front hugsa einungis um dýrin og halda því fram að ekki megi líta á þau sem "endurnýjanlegar auðlindir" mönnum til afnota. Þeir segja stundum að menning sem er háð veiðum eigi sér engan tilverurétt. Hreyfingin í heild einbeitir sér að náttúrunni, sér í lagi villtum dýrum, fremur en því sem tengist þörfum manna og vísindalegum rökum nýtingar.
Smellið til að sjá stærra
Selskinn í þurrkun, Grænland.
Alþjóða hvalveiðiráðið hefur einnig haft áhrif á afkomu frumbyggja á strandlengjunni. Ráðið hefur lögbundinn rétt til að hafa áhrif á hvalveiðar um allan heim. Hvalveiðiráðið hefur sett á tímabundið alþjóðlegt bann við hvalveiðum og hefur átt í erfiðleikum með að greina á milli hvalveiða í viðskiptaskyni og þeirra sjálfsþurftarveiða sem frumbyggjar stunda til að hafa í sig og á. Þjóðflokkar á ströndum Alaska urðu einkum fyrir barðinu á ákvörðunum ráðsins og næsta ár á eftir stofnuðu þeir sín eigin samtök sem þeir nefndu Alaska hvalveiðiráðið. Þessi samtök hafa haldið því fram að hvalveiðar væru nauðsynlegur þáttur í lífi þeirra og menningu. Þeir unnu líka sínar eigin rannsóknir og sönnuðu að slíkar veiðar myndu ekki ógna hvalastofnunum í heild. Miklu færri hvali þarf til að fæða samfélag frumbyggja á svæðinu heldur en utanaðkomandi aðilar veiða í hagnaðarskyni.
  Íbúar norðurslóða ferðast langar leiðir um heimskautasvæðin. Þetta er land forfeðranna og þar sinna þeir sínum verkum hvernig sem viðrar. Þeir hafa alltaf kunnað að meta frelsi einstaklingsins. Þeir geta ekki unnið í verksmiðjum einhvers staðar úti í buskanum og þeir kæra sig ekki um að draga fram lífið á félagslegum bótum frá ríkisstjórnum sínum í suðri. Þjóðareinkenni þeirra eru líka nátengd samskiptum við dýr. Sannleikurinn er sá að þjóðflokkarnir á heimskautasvæðunum geta ekki lifað sjálfstæðu lífi nema með þeim hætti sem þeir hafa alltaf gert, með því að lifa á því sem dýrin gefa af sér. Á ströndinni veiða þeir seli og hvali og inni í landi rækta þeir hreindýr. Að nokkru nytja þeir dýrin til matar og einnig til að kaupa lífsnauðsynjar nútímans, eins og steinolíu, lyf, byssur og flugfarmiða. Viðhorf fólks á norðurslóðum er að baráttan fyrir réttindum og verndun dýra vegi að rótum menningar þess og jafnvel sjálfum rétti þess til að draga fram lífið. Þetta er aðför manna sem sem vita fátt eitt um lífshætti í norðrinu, eru sjálfir fjarri heimi dýranna og njóta þeirra forréttinda að eiga margra kosta völ varðandi tilhögun eigin lífs. Þeir sem halda úti herferðinni heimta að dýrin séu aðeins veidd til matar, en afleiðingin yrði sú að frumbyggjarnir ættu enga peninga og gætu ekki einu sinni orðið sér úti um lyf; eða mikið er lagt upp úr hugtökum á borð við "hefð" og þess krafist að allir frumbyggjar hagi lífi sínu með með þeim hætti.
Smellið til að sjá stærra
Grænlenskur fiski- og veiðibátur.
Innfæddir, eins og allir aðrir, nota þá tækni og búnað sem virkar og er við hendina. Veiðimaðurinn í fyrsta kafla hefur valið þann kostinn að skjóta selinn úr felustað með riffli, fremur en nota skutul, eins og faðir hans hefði ef til vill gert, og kona hans og börn myndu kannske vilja ferðast hátt á annað þúsund kílómetra í flugvél á einum degi fremur en að leggja á sig hálfsmánaðar ferð með sleða. Hvers vegna ætti þetta fólk ekki að njóta sömu þæginda og náttúruverndarsinnar í suðri sem gagnrýna það. Hinir innfæddu benda á að aðeins eitt mengunarslys á borð við olíuskipið í Valdez getur valdið lífríkinu mun meiri þjáningum og kvöl en innfæddir veiðimenn gætu gert - og þessi þjáning þjónar ekki einu sinni þeim tilgangi að halda lífinu í neinum.
The animal-rights movement against sealing and whaling, by Piers Vitebsky. http://www.thearctic.is
Copyright Stefansson Arctic Institute and individual authors ©2000
Developed in partnership with the EU Raphael Programme